Íþróttafólk Þórs 2023: Elmar Freyr, Maddie og Sandra María kjörin

Nói Björnsson, formaður Þórs, Maddie Sutton og Sandra María Jessen, íþróttakonur Þórs, og Elmar Frey…
Nói Björnsson, formaður Þórs, Maddie Sutton og Sandra María Jessen, íþróttakonur Þórs, og Elmar Freyr Aðalheiðarson, íþróttakarl Þórs. Mynd: Páll Jóhannesson.

Kjöri íþróttafólks Þórs var lýst rétt í þessu í hófinu Við áramót sem haldið var í Hamri. Sú óvenjulega staða kom upp að tvær konur urðu hnífjafnar í kjörinu á íþróttakonu Þórs.

Áður en að kom að því að kjöri íþróttafólks Þórs yrði lýst voru Íslandsmeistarar og landsliðsfólk úr röðum Þórs og Þórs/KA heiðruð, íþróttafólk deildanna var heiðrað og Rúnar Eff hélt uppi léttri stemningu á milli verðlaunaafhendinga. 

Kjör íþróttafólks Þórs fer þannig fram að hverri deild er heimilt að tilnefna karl og konu úr sínum röðum sem aðalstjórn kýs síðan á milli. Sex af átta deildum félagsins tilnefndu karl og konu, en tvær deildir tilnefndu ekki fólk úr sínum röðum að þessu sinni. Kynning á íþróttafólki deildanna hefur þegar farið fram hér á heimasíðunni - sjá hér - en niðurstaðan í kjörinu að þessu sinni að þrjú hljóta viðurkenninguna, einn karl og tvær konur því þær urðu jafnar í kjörinu á íþróttakonu Þórs.

Íþróttakarl Þórs 2023: Elmar Freyr Aðalheiðarson

Íþróttakona Þórs 2023: Maddie Sutton og Sandra María Jessen

Nánar verður sagt frá verðlaunahófinu með fleiri myndum í annarri frétt síðar. Hér að neðan eru kynningartextar sem fylgdu með tilnefningum þessara þriggja frá viðkomandi deildum fyrir kjörið.

 

Hnefaleikadeild: Elmar Freyr Aðalheiðarson


Elmar Freyr Aðalheiðarson, íþróttakarl Þórs 2023. Mynd: Páll Jóhannesson.

Elmar Freyr Aðalheiðarson hefur stundað hnefaleika í átta ár. Hann hefur keppt í flokkum frá -75 kg upp í +92 kg. Hann er orðinn einn reynslumesti hnefaleikari Íslands og honum hefur verið boðið og tekið þátt í að berjast á erfiðustu mótum í Evrópu, svo sem Tammer í Finnlandi og Evrópumeistaramótinu og einnig hefur hann keppt við atvinnumann á boxkvöldi í Danmörku.

Elmar vann Íslandsmeistaratitilinn í flokki elite karla í ofurþungavigt (+92kg) þriðja árið í röð í ár. Þar sigraði hann Magnús Kolbjörn Eiríksson úr Hnefaleikafélagi Kópavogs í úrslitum.

Körfuknattleiksdeild: Madison Anne Sutton (Maddie)

Maddie Sutton og Sandra María Jessen, íþróttakonur Þórs 2023. Mynd: Páll Jóhannesson.

Maddie Sutton er fyrst og fremst einstakur félagsmaður og Þórsari. Hún gekk í raðir Þórs fyrir tímabilið 2022-23 og kom með þá orku inn í ungt og efnilegt lið Þórs sem það þurfti á að halda. Með komu hennar gjörbreyttist stemningin í liðinu og innan félagsins og átti hún stóran þátt í að koma Þór upp í efstu deild.

Hún skilaði lygilegum tölum með Þórsliðinu í 1. deildinni, en þó efuðust sérfræðingar um réttmæti þess að halda henni því óvenjulegt er að lið haldi erlendum leikmönnum þegar farið er upp um deild.. Þessar efasemdarraddir gerðu þó ekki ráð fyrir þeirri gríðarlegu vinnusemi sem Maddie býr yfir. Líklega æfir enginn innan félagsins jafn mikið og af sama krafti og hún.

Metnaður hennar til að verða betri með hverjum deginum hefur smitast vel inn í hópinn og hefur liðið nú þegar náð árangri á fyrsta tímabili í efstu deild sem farið hefur fram úr björtustu vonum. Hvað einstaklingsframlag og tölfræði varðar er hún í algjörum sérflokki í Subway-deildinni og er ein tveggja sem tvisvar hefur verið valin í lið umferðarinnar.

Maddie er ekki aðeins frábær inni á vellinum heldur er hún einnig gríðarlega mikilvæg fyrir félagsstarf körfunnar, þá sérstaklega yngri flokka. Hún er ein besta fyrirmynd sem við Þórsarar eigum í okkar röðum. Hún hefur verið gríðarlega mikilvægt púsl í yngri flokkunum þar sem unnið er að því að fjölga iðkendum í stúlknaflokkum. Það hefur tekist og fjöldi iðkenda kvennamegin hefur tvöfaldast.

Vonandi verða Þórsarar svo heppnir að geta kallað Maddie „okkar konu“ um ókomin ár. Hún hefur sýnt okkur að liðið getur afrekað nánast hvað sem er með hana í fararbroddi sem leikmaður, leiðtogi og félagsmaður okkar Þórsara.

 

Þór/KA: Sandra María Jessen

Sandra María tók við fyrirliðahlutverkinu fyrir tímabilið 2023 og var lykilmanneskja í öflugu liði Þórs/KA sem endaði í 5. sæti Bestu deildarinnar í haust, auk þess að hafa unnið Kjarnafæðismótið á æfingatímabilinu og komist í úrslitaleik Lengjubikarsins. Liðið vann öll lið sem það mætti á tímabilinu að minnsta kosti einu sinni, náði frábærum árangri í útileikjum þrátt fyrir langar bílferðir og endaði í efri hluta Bestu deildarinnar.

Hún vann sér fast sæti í landsliðinu aftur eftir að hafa verið í barnsburðarleyfi og hefur verið í byrjunarliði Íslands í næstum öllum leikjum liðsins í Þjóðadeildinni í ár þrátt fyrir að hafa orðið fyrir meiðslum um mitt sumar og misst af æfingaleikjum liðsins í júlí. Sandra María var markahæst leikmanna Þórs/KA í Bestu deildinni annað árið í röð. Hún skoraði átta mörk í 19 leikjum í Bestu deildinni og auk þess 12 mörk í sjö leikjum í A-deild Lengjubikarsins og tíu mörk í fjórum leikjum í Kjarnafæðismótinu, æfingamóti í janúar.

Sandra María lék á árinu sinn 200. meistaraflokksleik fyrir Þór/KA (KSÍ leikir og Evrópukeppni) og nokkuð er síðan hún jafnaði og bætti félagsmet hjá Þór/KA í skoruðum mörkum í efstu deild og bætir það met með hverju marki sem hún skorar. Að meðtöldum leikjum í efstu deildum Tékklands og Þýskalands náði Sandra María þeim áfanga í haust að spila sinn 200. leik í efstu deild, 153 á Íslandi og 48 erlendis.

Sandra María er mikilvægur liðsmaður í ungu en öflugu liði Þórs/KA, fyrirmynd fyrir yngri iðkendur í ástundun, hugarfari, vinnuframlagi og baráttu.