Knattspyrna: Glæsilegur sigur hjá Þór/KA

Hulda Ósk Jónsdóttir og Gwendolyn Mummert í leik liðanna á Þórsvellinum í fyrrasumar. Skömmu síðar h…
Hulda Ósk Jónsdóttir og Gwendolyn Mummert í leik liðanna á Þórsvellinum í fyrrasumar. Skömmu síðar hafði Hulda Ósk skorað glæsilegt mark. Mummert var besti maður gestanna í leiknum í gær og fékk meðal annars það hlutverk að fylgja Söndru Maríu eins og skugginn, ef Sandra fór á hægri kantinn fór Mummert vinstra megin í vörn Tindastóls. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

Þór/KA skaust upp í 2. sæti Bestu deildar kvenna í knattspyrnu með 5-0 sigri á liði Tindastóls í Boganum í gærkvöld. 

Það var ljóst frá byrjun í hvað stefndi því Þór/KA sótti af krafti allan fyrri hálfleikinn, pressaði lið gestanna framarlega og skapaði sér fjölmörg færi. Fyrsta markið kom eftir um stundarfjórðung þegar Agnes Birta Stefánsdóttir skoraði með skalla eftir hornspyrnu. Karen María Sigurgeirsdóttir bætti við öðru marki um fimm mínútum síðar og þegar hálftími var liðinn af leiknum kom þriðja markið þegar Iðunn Rán Gunnarsdóttir skoraði af stuttu færi eftir hornspyrnu. Sandra María Jessen skoraði svo glæsilegt mark á lokasekúndum fyrri hálfleiksins og Þór/KA með fjögurra marka forystu í leikhléinu.

Seinni hálfleikurinn var ekki eins kröftugur og aðgerðir inni á vellinum leiddu ekki til marks fyrr en innan við tíu mínútur voru eftir af leiknum. Þá voru það Sonja Björg Sigurðardóttir og Emelía Ósk Krüger, sem komið höfðu inn á sem varamenn um þremur mínútum fyrr, sem settu punktinn yfir i-ið. Sonja Björg hafði komist í fínt færi skömmu áður og átt skot framhjá, en í þetta skiptið átti hún fyrirgjöf á Emelíu Ósk sem skoraði með skalla. 

Fimm mörk, fimm markaskorarar og þriðji leikurinn af sex í deildinni þar sem Þór/KA skorar fjögur mörk eða meira og fær ekki á sig mark. Með sigrinum fór Þór/KA upp fyrir Val á betri markamun, en liðin eru bæði með 15 stig eftir sex leiki. Breiðablik er á toppnum með 18 stig. Þessi þrjú lið hafa öll skorað 18 mörk í fyrstu sex leikjunum og hafa, í bili að minnsta kosti, slitið sig aðeins frá öðrum liðum.

Þór/KA - Tindastóll 5-0 (4-0)

  • 1-0 - Agnes Birta Stefánsdóttir (14')
  • 2-0 - Karen María Sigurgeirsdóttir (18')
  • 3-0 - Iðunn Rán Gunnarsdóttir (29')
  • 4-0 - Sandra María Jessen (45+2')
  • 5-0 - Emelía Ósk Krüger (82')
  • Leikskýrslan (ksi.is)
  • Staðan í deildinni (ksi.is)

Næsti leikur liðsins verður toppslagur því Breiðablik kemur norður 8. júní. Nú tekur við landsleikjahlé í deildinni þar sem A-landsliðið á fyrir höndum tvo leiki gegn Austurríki í undankeppni EM 2025 og U23 landsliðið kemur einnig saman til æfinga.