Knattspyrna: Þór/KA áfram í undanúrslit Mjólkurbikars

Þór/KA vann 1-0 útisigur gegn FH í átta liða úrslitum Mjólkurbikarsins í gær og mætir Breiðabliki á heimavelli í undanúrslitum.

Markalaust var eftir fyrri hálfleikinn og ekki mikið um opin færi. Strax á 3. mínútu seinni hálfleiksins skoraði Sandra María Jessen eina mark leiksins, en hún hafði komið inn sem varamaður eftir leikhléið. Hulda Ósk Jónsdóttir og Lara Ivanuša spiluðu sig þá skemmtilega í gegnum vörn FH-inga í vítateignum og Hulda Ósk kom boltanum til Söndru Maríu sem skoraði af öryggi.

Þegar um stundarfjórðungur var liðinn af seinni hálfleiknum fengu FH-ingar víti, en Shelby Money varði vítaspyrnuna og Þór/KA hélt því forystunni. Þetta eina mark Söndru Maríu dugði því FH-ingum tókst ekki að koma boltanum í markið hjá Þór/KA, sigurinn staðreynd og Þór/KA komið áfram í undanúrslit Mjólkurbikarkeppninnar. 

FH - Þór/KA 0-1 (0-0)

  • 0-1 - Sandra María Jessen (48'). Stoðsending: Hulda Ósk Jónsdóttir.
  • 0-1 - Misnotað víti FH, Shelby Money ver.

Allir leikir átta liða úrslitanna fórum fram í gær og var dregið fyrir leiki undanúrslitanna í beinni útsendingu Sjónvarpsins að loknum síðasta leik kvöldsins. Þór/KA fær heimaleik gegn Breiðabliki og Valur fær Þrótt í heimsókn. Leikirnir fara fram 29. og 30. júní. 

Nánar á thorka.is.