Knattspyrna: Þór/KA með sjöunda sigurinn, áfram í toppbarátunni

Þór/KA vann Fylki með þremur mörkum gegn einu í 9. umferð Bestu deildar kvenna í knattspyrnu í gær. Liðið hefur nú unnið sjö leiki og fylgir toppliðum Breiðabliks og Vals eftir eins og skugginn.

Hildur Anna Birgisdóttir kom Þór/KA yfir með skoti utan vítateigs í fyrri hálfleiknum, en Guðrún Karítas Sigurðardóttir jafnaði með skoti af stuttu færi eftir hornspyrnu. Jafnt var í leikhléi. Okkar konur komu sterkari og yfirvegaðri út í seinni hálfleikinn og skoruðu tvívegis þegar langt var liðið á leikinn. Hulda Björg Hannesdóttir skoraði af stuttu færi eftir að Sandra María Jessen hafði skallað í þverslá eftir hornspyrnu. Lara Ivanuša kláraði svo dæmið með skoti utan vítateigs sjö mínútum síðar með sínu fyrsta marki fyrir félagið og fyrsta marki í Bestu deildinni. 

Með sigrinum fylgir Þór/KA efstu liðunum eftir eins og skugginn. Breiðablik og Valur eru með 24 stig eftir níu umferðir og Þór/KA með 21 stig. Næsti leikur liðsins er einmitt gegn Val, á heimavelli strax næsta þriðjudag, 25. júní, kl. 18.

Þór/KA - Fylkir 3-1 (1-1) 

Nánar er fjallað um leikinn í máli, tölum og myndum á thorka.is.