Knattspyrna: Þór/KA með útileik gegn Stjörnunni í dag

Þór/KA mætir Stjörnunni á útivelli í 8. umferð Bestu deildarinnar í dag. Leikurinn fer fram á Samsung-vellinum í Garðabæ og hefst kl. 16.

Það ætti ekki að væsa um áhorfendur á leiknum í dag því veðurspáin er góð fyrir suðvesturhornið, sólskin, hægur andvari og 14 gráðu hiti. Það er því ástæða til að hvetja okkar fólk á suðvesturhorninu til að mæta í Garðabæinn, styðja stelpurnar til sigurs og njóta þess að horfa á skemmtilegan fótboltaleik. Leikirnir hjá Þór/KA það sem af er ári hafa flestir eða allir verið hin besta skemmtun.

Leikurinn í dag er þriðji leikur Þórs/KA á átta dögum, þar af annar útileikurinn. Liðið spilaði heimaleik í deildinni síðastliðinn laugardag og útileik í bikarkeppninni á þriðjudag. Eftir sjö umferðir er Þór/KA í 3. sæti deildarinnar með 15 stig, hefur unnið fimm leiki og tapað tveimur. Stjarnan er í 5. sæti með níu stig, hefur unnið þrjá leiki, en tapað fjórum.

Nánar á thorka.is.