Knattspyrna: Þór/KA tekur á móti Val í dag

Breyttur leiktími: 18:15. Þór/KA tekur á móti Val í 10. umferð Bestu deildarinnar á VÍS-vellinum (Þórsvellinum) í kvöld kl. 18:15.

Þessi lið eru í 2. og 3. sæti Bestu deildarinnar eftir fyrsta hluta mótsins. Þór/KA er með 21 stig í 3. sætinu, en Valur í 2. sætinu með 24 stig eins og Breiðablik. Stigin þrjú sem eru í boði eru því dýrmæt (eins og alltaf) fyrir bæði liðin til að halda áfram og halda góðri stöðu í toppbarátunni. Á sama tíma fara Blikar til Keflavíkur.

Þór/KA og Valur mættust á N1 vellinum að Hlíðarenda í fyrstu umferð mótsins. Valur hafði þar betur, 3-1. Sandra María Jessen skoraði mark Þórs/KA í þeim leik. Valur hafði einnig betur í öllum þremur viðureignum liðsins í Bestu deildinni í fyrra, 1-0 á Origo-vellinum að Hlíðarenda, 2-3 á VÍS-vellinum í seinni umferðinni og 6-0 á Origo-vellinum í efri hlutanum í lok móts. Karen María Sigurgeirsdóttir og Bríet Jóhannsdóttir skoruðu mörkin tvö í tapinu á VÍS-vellinum.

Það er því sannarlega kominn tími til að ná sigri gegn Val og þarf ekki að fjölyrða um mikilvægi þess að fá fólk á völlinn og fá öflugan stuðning úr stúkunni. Mikilvægi stuðningsins hefur margsýnt sig. Upphitun fyrir leikinn verður hefðbuntinn, grillið funheitt og borgararnir ljúffengir beint af grillinu, Jói í sófanum eða Peddi á pallinum kl. 17:30, fótboltaspilin til sölu í sjoppunni og bara eitt að gera, fylla stúkuna og styðja stelpurnar til sigurs!

Nánar á thorka.is.