Knattspyrna: Þór/KA vann Tindastól og áfram í bikar

Leikmenn Þórs/KA fagna einu af fimm mörkum liðsins í sigri á Tindastóli á Þórsvellinum í fyrrasumar.…
Leikmenn Þórs/KA fagna einu af fimm mörkum liðsins í sigri á Tindastóli á Þórsvellinum í fyrrasumar. Mynd: Skapti Hallgrímsson - Akureyri.net.

Þór/KA vann 2-1 sigur á Tindastóli í 16 liða úrslitum Mjólkurbikarkeppni kvenna í knattspyrnu í dag. Leikurinn fór fram á Dalvíkurvelli. 

Þór/KA lék undan sterkum vindi í fyrri hálfleik og sótti fast að marki Tindastóls. Það voru hins vegar Skagfirðingar sem skoruðu fyrsta mark leiksins á 29. mínútu þegar Jordyn Rhodes fékk boltann inni á miðjum teig, snéri á varnarmann og skoraði. Þór/KA lét þetta ekki slá sig út af laginu og fimm mínútum síðar skoraði Karen María Sigurgeirsdóttir glæsilegt mark eftir sendingu frá Söndru Maríu Jessen hægra megin í teignum. Boltinn söng upp í markhorninu fjær. Okkar konur létu það ekki nægja heldur bættu við öðru marki á lokamínútu fyrri hálfleiksins, aftur eftir glæsilegan undirbúning. Karen María átti þá góða sendingu inn fyrir vörnina til vinstri á Sönru Maríu sem sótti að markinu en sá betra færi fyrir Huldu Ósk Jónsdóttur en sjálfa sig, renndi boltanum þvert yfir markteiginn þar sem Hulda Ósk tók hann með vinstri og skoraði af öryggi. 

Ekkert var skorað í seinni hálfleiknum og niðurstaðan því 2-1 sigur Þórs/KA sem var þar með fyrsta liðið til að tryggja sig áfram í átta liða úrslit Mjólkurbikarsins. Dregið verður í átta liða úrslitin þriðjudaginn 21. maí, en leikir átta liða úrslitanna fara fram 11. og 12. júní.