Karfan er tóm.
- Deildir
- Fréttir & Greinar
- Fræðsla & Forvarnir
- Félagið
- Miðlar & Myndefni
- Ábending um heiðursmerki
- Þór TV
Það verður boðið upp á sannkallað körfuboltafár í Íþróttahöllinni á Akureyri í dag þegar bæði meistaraflokkslið Þórs í körfuboltanum verða í eldlínunni í úrslitakeppnum deildanna.
Upphitun fyrir leikina hefst í Höllinni kl. 16, kveikt upp í grillinu og gert klárt fyrir baráttu við Grindvíkinga og Borgnesinga í úrslitakeppnum Subway-deildar kvenna og 1. deildar karla.
Fyrri leikur dagsins er viðureign Þórs og Grindavíkur í átta liða úrslitum Subway-deildar kvenna. Grindvíkingar enduðu í 2. sæti deildarinnar og Þórsarar í 7. sæti. Fyrsta leik liðanna lauk með sjö stiga sigri Grindvíkinga og staðan í einvíginu því 0-1, en vinna þarf þrjá leiki til að fara áfram í undanúrslitin. Þórsstelpurnar eru þekktar fyrir mikla og góða stemningu og leikgleði, sem magnast upp með góðum stuðningi úr stúkunni. Góð mæting og lifandi stemning meðal stuðningsfólksins getur því skipt sköpum í dag. Leikur Þórs og Grindavíkur hefst kl. 17.
Það sama á auðvitað við um leik karlaliðsins sem hefst kl. 19:15. Jafnt er í einvígi Þórs og Skallagríms, bæði lið með einn sigurleik og tveggja stig útisigur í báðum leikjunum. Það má því búast við baráttu, hraða og spennu til síðustu sekúndu í kvöld. Stuðningurinn getur því skipt sköpum í kvöld til að tryggja heimavöllinn ef kemur til oddaleiks í einvíginu, en eins og hjá konunum þarf að vinna þrjá leiki til að fara áfram í undanúrslit.