Karfan er tóm.
- Deildir
- Fréttir & Greinar
- Fræðsla & Forvarnir
- Félagið
- Miðlar & Myndefni
- Ábending um heiðursmerki
- Þór TV
Eftir landsleikjahlé er aftur komið að Subway-deild kvenna í körfubolta og má segja að á dagskrá í dag sé sögulegur leikur. Stelpurnar okkar mæta Grindvíkingum á útivelli, en þó ekki í Grindavík af ástæðum sem öllum eru væntanlega kunnugar. Leikurinn fer fram í Smáranum í Kópavogi.
Þórsarar hafa mögulega komið einhverjum á óvart, en þó ekki sjálfum sér eða þeim sem standa næst liðinu. Stelpurnar hafa unnið fjóra leiki af sjö og eru í 5.-6. sæti ásamt Stjörnunni. Grindvíkingar hafa á að skipa öflugu liði, en eru þó aðeins einum sigri á undan Þórsliðinu, hafa unnið fimm leiki af sjö. Grindvíkingar töpuðu naumlega fyrir toppliði Keflavíkur í síðustu umferð, í Grindavík, á meðan Þórsarar unnu Hauka á heimavelli. Tapleikir Grindvíkinga komu á móti nágrannaliðunum suður með sjó, Keflavík og Njarðvík.
Leikurinn í dag verður klárlega sögulegur af ýmsum ástæðum.
Í fyrsta lagi vegna aðstæðna í Grindavík, bærinn rýmdur og leikurinn spilaður í Kópavogi. Vegna þeirrar stöðu sem upp er komin ákvað Körfuknattleikssambandið einhliða að setja upp tvöfaldan Grindavíkurdag í Smáranum og þurfti töluverðar breytingar til. Í Subway-deild karla átti lið Hamars, sem berst fyrir lífi sínu neðst í deildinni, heimaleik gegn Grindvíkingum sem hefði þá verið spilaður í gær eða í dag. Þeim leik var breytt í útileik og settur á í Smáranum kl. 17 í dag. Leikur Þórs og Grindavíkur í Subway-deild kvenna átti upphaflega að fara fram á morgun, en hann hafði verið færður yfir á daginn í dag og tímasettur kl. 16:30. Hann var síðan færður til kl. 14 til að koma karlaleiknum fyrir á sama stað kl. 17, án þess að hugað væri að því hvert þessara fjögurra liða ætti lengsta ferðalagið fyrir höndum í þessa körfuboltahátíð í Smáranum. Konunum var gert að spila kl. 14, en karlarnir spila kl. 17. Það er eins og það er.
Í öðru lagi má búast við húsfylli í Smáranum í ljósi þeirrar stöðu sem nú er uppi. Því er ástæða til að hvetja Þórsara á suðvesturhorninu til að mæta í Smárann og styðja stelpurnar okkar. Þetta verður alvöru prófraun fyrir okkar lið þar sem búast má við fjölmörgum Grindvíkingum í stúkunni. Klárlega mikil skemmtun í boði og má búast við góðri stemningu, en engin ástæða fyrir stuðningsfólk Þórs til að vera feimið við að styðja sitt lið gegn Grindvíkingum. Þannig sýnum við íþróttinni og andstæðingum virðingu.
Sjá einnig í fyrri frétt hér.