Körfubolti: Hundrað plús í Höllinni

Þórsarar sigruðu Hrunamenn með 22ja stiga mun í 6. umferð 1. deildar karla í körfubolta í kvöld.

Þórsarar tóku af skarið strax í upphafi og höfðu forystu nær allan leikinn, nema hvað jafnt var 11-11 þegar fyrsti leikhlutinn var tæplega hálfnaður. Jason Gigliotti fór mikinn í byrjun og skoraði 14 af 22 stigum liðsins í fyrsta fjórðungi. Þórsarar bættu smátt smátt við forskotið ef frá er talinn kafli í lok fyrri hálfleiks og upphafi þess seinni þegar munurinn varð minnstur átta stig. Þrettán stiga forysta eftir fyrri hálfleikinn og Þórsarar sigldu sigrinum örugglega í höfn í þeim seinni. Allir leikmenn sem voru á skýrslu komu við sögu í leiknum.

Chancellor Calhoun-Hunter var langöflugastur gestanna, skoraði 37 stig og Aleksi Liukko 18 stig og 16 fráköst.

Þór - Hrunamenn (22-17) (29-21) 51-38 (23-19) (31-26) 105-83

Jason Gigliotti var öflugur sem áður, skoraði 26 stig og tók tíu fráköst, með yfir 80% nýtingu í tveggja og þriggja stiga skotum. Reynir Róbertsson sömuleiðis, skoraði 23 stig og tók tíu fráköst. Og svo er auðvitað gaman að segja frá því að Mike Walcott var með fleiri stig en mínútur, setti niður þrjá þrista í fjórum tilraunum. Smári Jónsson mataði samherjana og endaði með 13 stoðsendingar, fleiri en stigin sem hann skoraði.

Það þarf ekki að koma á óvart miðað við lokatölurnar að Þórsarar voru yfir í öllum tölfræðiþáttum leiksins, eins og sjá má á myndinni hér að neðan. Ítarlega tölfræði leiksins má skoða með því að smella á myndina.

Þór
Stig/fráköst/stoðsendingar: Jason Gigliotti 26/10, Reynir Róbertsson 23/10/1, Smári Jónsson 12/3/13, Mike Walcott 11/3/3, Baldur Örn Jóhannesson 9/9/4, Sigurjón Trausti Guðgeirsson Hjarðar 5/2, Arngrímur Alfreðsson 5/0/1, Kolbeinn Fannar Gíslason tók tvö fráköst, Róbert Orri Heiðmarsson tók tvö fráköst og átti eina stoðsendingu og Fannar Ingi Kristínarson var með eina stoðsendingu.

Hrunamenn
Stig/fráköst/stoðsendingar: Chancellor Calhoun-Hunter 37/6/2, Aleksi Liukko 18/16/3, Hringur Karlsson 9/2, Óðinn Freyr Árnason 8/2/1, Símon Tómasson 6/1/2, Eyþór Orri Árnason 3/6/5, Friðrik Heiðar Vignisson 2/1, Patrik Gústafsson tók tvö fráköst.

Þetta var annar sigur Þórsara í sex leikjum og eru þeir nú í 7. sæti deildarnnar með tvo sigra, eins og ÍA og Selfoss. Næst á dagskrá er heimsókn á Skagann föstudaginn 17. nóvember.

  • Deild: 1. deild karla
  • Leikur: ÍA - Þór
  • Staður: Jaðarsbakkar
  • Dagur: Föstudagur 17. nóvember
  • Tími: 19:15