Körfubolti: Þór í neðri hlutanum í næsta hluta deildarinnar

Emma Karólína Snæbjarnardóttir í leiknum gegn Grindavík í síðustu umferð. Hún er komin aftur á fullt…
Emma Karólína Snæbjarnardóttir í leiknum gegn Grindavík í síðustu umferð. Hún er komin aftur á fullt eftir að hafa misst af fyrri hluta tímabilsins vegna meiðsla. Mynd: Páll Jóhannesson.

Þórsliðið náði ekki að koma Keflvíkingum í vandræði í leik liðanna í 18. umferð Subway-deildar kvenna í körfubolta eins og í fyrri leik liðanna í nóvember. Keflvíkingar unnu og Þór er áfram í 6. sæti deildarinnar. 

Fyrirfram mátti búast við erfiðum leik því Keflvíkingar hafa fengið eina bestu körfuboltakonu landsins, Söru Rún Hinriksdóttur, aftur í sínar raðir eftir að hún hafði spilað erlendis. Á sama tíma var hópur Þórsliðsins óvenju fámennur. Það sýndi sig líka fljótlega að Keflvíkingar voru sterkari og munurinn orðinn tíu stig eftir fyrsta leikhlutann og 23 stig að loknum fyrri hálfleiknum. Niðurstaðan að lokum 29 stiga sigur Keflvíkinga.

Keflavík - Þór (22-12) (27-14) 49-26 (26-17) (22-25) 97-68

Maddie Sutton lét mest til sín taka í Þórsliðinu, skoraði 24 stog og tók 18 fráköst. Sara Rún Hinriksdóttir og Thelma Ágústsdóttir skoruðu mest í liði Keflvíkinga. Smellið á myndina til að skoða ítarlega tölfræði leiksins. 

Stig/fráköst/stoðsendingar

Keflavík: Sara Rún Hinriksdóttir 22/4/2, Thelma Ágústsdóttir 22/0/1, Daniela Wallen 11/11/3, Birna Benónýsdóttir 9/4/3, Emelía Ósk Gunnarsdóttir 9/2/1, Hanna Halldórsdóttir 7/1/0, Elisa Pinzan 6/4/3, Anna Ingunn Svansdóttir 5/5/3, Lovísa Sverrisdóttir 5/0/1, Irena Jónsdóttir 1/1/1, Anna Lára Vignisdóttir 0/1/1. 

Þór: Maddie Sutton 24/18/1, Eva Wium Elíasdóttir 14/2/6, Lore Devos 12/9/2, Hulda Ósk Bergsteinsdóttir 6/1/1, Heiða Hlín Björnsdóttir 5/3/2, Emma Karólína Snæbjarnardóttir 4/4/1, Hrefna Ottósdóttir 3/2/0. 

Þór hefur unnið sjö leiki af 16 og er í 6. sæti deildarinnar. Valur á inni leik gegn Njarðvík í Njarðvík annað kvöld og getur þá einnig farið í sjö sigra. Nú tekur við annað stig deildarkeppninnar þar sem liðin í 6.-9. sæti deildarinnar, Þór, Valur, Fjölnir og Snæfell mætast í tvöfaldri umferð áður en kemur að átta liða úrslitakeppni.

Væntanlega hafa áhorfendur tekið eftir því í kvöld að Jovanka Ljubetic var ekki í leikmannahópi Þórs. Ástæðan er að hún ákvað að söðla um og hefur gengið í raðir Aþenu og mun spila með liðinu í 1. deildinni. Þórsarar þakka henni fyrir framlag hennar til liðsins og óska henni góðs gengis.


Jovanka Ljubetic í leiknum gegn Grindavík í Íþróttahöllinni á Akureyri, sem nú hefur komið í ljós að var síðasti leikur hennar fyrir félagið. Mynd: Páll Jóhannesson.