Karfan er tóm.
- Deildir
- Fréttir & Greinar
- Fræðsla & Forvarnir
- Félagið
- Miðlar & Myndefni
- Ábending um heiðursmerki
- Þór TV
Matthías Örn Friðriksson, fjórfaldur Íslandsmeistari í pílukasti, er genginn til liðs við píludeild Þórs á Akureyri. Hann er Dalvíkingur en hefur lengi verið búsettur í Grindavík og keppt fyrir Pílufélag Grindavíkur. Til gamans má geta þess að Matthías lék knattspyrnu með Þór fyrir margt löngu.
„Það er mikill uppgangur og metnaður hjá píludeild Þórs og mig langar að taka þátt í þeirri vegferð. Grindavík mun þó ávallt eiga stað í mínu hjarta og ég kveð félagið með söknuði. Ég byrjaði að kasta pílu í Grindavík árið 2012 og vonandi fær maður að kasta pílu þar aftur í framtíðinni,“ segir Matthías.
„Mitt markmið er að hjálpa íþróttinni að vaxa og dafna á landinu öllu. Ég vil einnig reyna að standa mig vel í þeim mótum erlendis sem ég tek þátt í og þá geta ýmsar dyr opnast. Ég fékk smjörþefinn af því hvernig þeir bestu í heimi kasta þegar ég vann mér inn keppnisrétt á Nordic Darts Masters árið 2022 þar sem ég keppti við þáverandi heimsmeistara Peter Wright og stefnan er að sjálfsögðu sett aftur upp á það svið.“
Davíð Örn Oddsson, formaður píludeildar Þórs, er himinlifandi með nýjan liðsmann. „Það er frábært fyrir píludeild Þórs að fá Matthías til okkar. Mikill uppgangur hefur verið hjá okkur síðustu ár og að fá Matta til okkar styður við þá vegferð sem píludeild Þórs er á. Við munum halda áfram á sömu braut að styrkja starfið okkar, kynna pílukast fyrir nýliðum og efla núverandi meðlimi píludeildar Þórs.“
Fréttin er skrifuð af Skapta Hallgrímssyni á Akureyri.net og fengin að láni þaðan.