Karfan er tóm.
- Deildir
- Fréttir & Greinar
- Fræðsla & Forvarnir
- Félagið
- Miðlar & Myndefni
- Ábending um heiðursmerki
- Þór TV
Óskar Jónasson frá píludeild Þórs sigraði Scott Ramsay í 16 manna úrslitum á pílumóti RIG í dag, en féll síðan út í fjórðungsúrslitum.
Riðlakeppni pílumóts Reykjavík International Games (RIG) fór fram í gærkvöld. Allir fulltrúar píludeildar Þórs í karlaflokki fóru áfram eftir riðlakeppnina og eini keppandi Þórs í kvennaflokki einnig. Þrír af körlunum, Davíð Örn Oddsson, Garðar Þórisson og Sigurður Þórisson féllu síðan út í 64 manna úrslitum í morgun. Viðar Valdimarsson komst áfram í 16 manna úrslit, en var þar sleginn út af þjálfara píludeildar Þórs, Matthíasi Erni Friðrikssyni.
Í kvennaflokki áttu Þórsarar einn fulltrúa, Hrefnu Sævarsdóttur. Hún komst áfram eftir riðlakeppnina í gærkvöld, en féll úr leik í sextán manna úrslitum í morgun.
16 manna úrslit
Hrefna Sævarsdóttir - Steinunn Dagný Ingvarsdóttir 1-4
64 manna úrslit
Óskar Jónasson - Alex Máni Pétursson 4-0
Davíð Örn Oddsson - Brynjar Freyr Þorleifsson 3-4
Sigurður Brynjar Þórisson - Guðjón Hauksson 1-4
Viðar Valdimarsson - Kristinn Arnar Sigurðsson 4-1
Garðar Gísli Þórisson - Siggi Tomm 0-4
32ja manna úrslit
Óskar Jónasson - Pétur Rúðrik Guðmundsson 4-3
Viðar Valdimarsson - Rúnar Freyr Ágústsson 4-1
16 manna úrslit
Óskar Jónasson - Scott Ramsay 4-3
Viðar Valdimarsson - Matthías Örn Friðriksson 1-4
8 manna úrslit
Óskar Jónasson - Kristján Sigurðsson 1-4
Sigurður Þórisson mætti Guðjóni Haukssyni í 64 manna úrslitum og mátti játa sig sigraðan, en Guðjón hefur um árabil verið á meðal sterkustu pílukastara hér á landi. Óskar Jónasson sló út feðga í 64ra og 32ja manna úrslitum, þá Alex Mána og förður hans Pétur Rúðrik, sem báðir eru sterkir í pílukastinu. Viðar Valdimarsson fékk kennslustund frá einum besta pílukastara landsins og nýráðnum þjálfara píludeildar Þórs, Matthíasi Erni Friðrikssyni.
Óskar mætti Scott Ramsay í 16 manna úrslitum núna í hádeginu. Hann tapaði fyrsta leggnum, en jafnaði í 1-1. Óskari gekk illa með útskotin og Ramsay vann næstu tvo leggi, útlitið ekki gott og staðan 3-1 Ramsay í vil. Vinna þurfti fjóra leggi til að vinna viðureignina. Óskar náði að snúa leiknum við og vann næstu þrjá leggi og þar með leikinn, 4-3. Komst þar með áfram í fjórðungsúrslitin.
Óskar mætti Kristjáni Sigurðssyni í fjórðungsúrslitunum. Kristján vann fyrstu tvo leggina, en Óskar þann þriðja. Kristján vann síðan næstu tvo leggi og þar með leikinn, 4-1. Óskar hefur þar með lokið keppni, en hann náði lengst keppenda frá píludeild Þórs, féll út í átta manna úrslitunum.
Hér er hægt að fylgjast með úrslitum leikja og gangi mála - Match Center Reykjavik International Games 2023 - TV DartConnect.
Hér að neðan má sjá skjáskot úr vefútsendingu frá viðureigninni. Fyrri myndin sýnir að Óskar átti 66 eftir og kláraði það með því að skora 16 (reyndi við þrefaldan 16), síðan einfaldan 18 og tók svo útskotið í tvöföldum 16. Ef smellt er á efri myndina er hægt að sjá upptökur og beint streymi frá nokkrum leikjum í dag, þar á meðal viðureign Óskars gegn Scott Ramsay.