Pílukast: Íslandsmót félagsliða 2024

Lið píludeildar Þórs á laugardeginum. Efri röð t.v. Sigurður Þórisson, Friðrik Gunnarsson, Matthías …
Lið píludeildar Þórs á laugardeginum. Efri röð t.v. Sigurður Þórisson, Friðrik Gunnarsson, Matthías Örn, Davíð Örn, Jason Wright, Kolbrún Gígja, Óskar Jónasson, Viðar Valdimarsson og Ágúst Vilbergsson. Neðri röð t.v. Hrefna Sævarsdóttir, Sunna Valdimarsdóttir og Dóra Óskarsdóttir.

Frábærri helgi lokið í pílukasti er Íslandsmót í liðakeppni fór fram sunnan heiða. Keppt var í tvímenning, einmenning og liðakeppni. Á laugardagsmorgni hófst keppni í tvímenning. Spilað var í riðlum og svo útslætti. Fjögur karlalið og tvö kvennalið hófu þá leik. Davíð Örn og Viðar Valdimarsson náðu lengst hjá körlum en þeir lentu í 5.- 8. sæti eftir tap í 8 liða úrslitum. Hjá konum voru það Dóra Óskarsdóttir og Sunna Valdimarsdóttir en þær lentu í 5. - 8. sæti eftir tap í 8 liða úrslitum.

Hægt er að skoða úrslit í riðlakeppni hér ásamt útslætti:

Eftir tvímenning fór einmenningur hjá körlum og konum í gang en þar var beinn útsláttur. Hjá körlum var það Matthías Örn sem fór lengst en Matti tapaði í úrslitaleik, 4-3. Næst lengst fór Davíð Örn, en tap var niðurstaðan í 16 manna úrslitum hjá Davíð. Aðrir karlar duttu út í fyrsta leik í útslætti. Hjá konum voru það Kolbrún Gígja, Dóra Óskarsdóttir og Hrefna Sævarsdóttir sem töpuðu sínum leik í 16 manna úrslitum en Sunna Valdimarsdóttir tapaði í 32 manna úrslitum.

Hér er hægt að sjá leikina hjá körlum og konum í einmenning:


Á sunnudeginum var komið að liðakeppni. Keppni í riðlum hófst kl 10:30 en fjórir leikmenn voru saman í liði þar. Karlaliðin fóru bæði áfram uppúr riðli og mættu liðum Pílufélags Grindavíkur í 8 liða úrslitum en töpuðu bæði og niðurstaðan því 5.- 8. sæti.

Kvennaliðið fór áfram uppúr riðli og mætti Pílukastfélagi Reykjavíkur í undanúrslitum en tap var niðurstaðan þar og endaði kvennaliðið í 3.- 4. sæti í liðakeppni.


Niðurstaða helgarinnar var að karlalið endaði í 4. sæti með 88 stig en í heildina voru 9 aðildarfélög skráð til leiks hjá körlum. Kvennalið endaði í 5. sæti með 47 stig en 6 aðildarfélög voru skráð til leiks hjá konum. Mikil bæting í stigasöfnun frá síðasta ári og framtíðin er björt hjá Píludeild Þórs.

Hér má sjá samantekt mótsins frá Íslenska pílukastsambandinu.

Pílukast er farið á fullt og verður þétt dagskrá hjá píludeild Þórs í haust/vetur. Æfingar fyrir krakka- og unglinga hefjast mánudaginn 9. september. Æfingar verða á mánudögum og miðvikudögum frá kl 17:00 - 18:00. Nánari upplýsingar á Sportabler.

Fyrir frekari upplýsingar og tilkynningar er hægt að fylgjast með á Facebook síðu píludeildar Þórs: