Karfan er tóm.
- Deildir
- Fréttir & Greinar
- Fræðsla & Forvarnir
- Félagið
- Miðlar & Myndefni
- Ábending um heiðursmerki
- Þór TV
Halló, Þórsarar
Nokkur orð um boltaliðin okkar. Í augnablikinu er mikið um að vera hjá félaginu. Úrslitakeppnin í fullum gangi eða nýlokið í körfunni og handboltanum, síðan er fótboltinn byrjaður að rúlla með öllum sínum væntingum.
Í öllum okkar liðum eru meira og minna uppaldir leikmenn úr Þorpinu, við erum virkilega stolt af því uppbyggingastarfi sem er í gangi hjá félaginu.
Því miður fór handboltinn ekki vel hjá KA/Þór og féll liðið um deild, félagið hefur nú þegar ráðið til sín flottan þjálfara sem þekkir það vel að byggja upp. Við treystum Jonna til góðra verka þar næstu árin, hann mun vinna þetta verkefni vel eins og allt annað sem hann gerir.
Stelpurnar í körfuboltaliðinu okkar hafa heldur betur slegið í gegn í vetur með framgangi bæði innan sem utan vallar. Ég var þeirrar gleði aðnjótandi að fylgjast með liðinu í bikarúrslitaleiknum og allri þeirri umgjörð sem skapaðist þar og var hreint frábær. Ég verð að geta hér um viðtalið sem hún Eva okkar fór í eftir undanúrslitaleikinn í bikarnum, þar talaði Eva sérstaklega um „Þórs-fjölskylduna“ og „Þórshjartað“. Það var stoltur formaður sem fór á koddann það kvöldið, þetta þótti mér ánægjulegt að heyra. Stelpurnar hafa verið einstakar í allan vetur, liðsandinn og baráttan á vellinum, allir leikmenn leggja sig alltaf 100% fram, erlendu leikmennirnir falla eins og flís við rass í hópinn. Það eru ekki bara þær sem allt stendur og fellur með við eigum flotta uppalda leikmenn sem fá að njóta sín og gera með stæl. Liðið minnir mig mikið á Þór/KA þegar það lið var að vaxa og dafna. Hjartað á réttum stað.
Þó svo að liðið hafið lokið keppni þetta vorið þá er ég þegar orðinn spenntur fyrir næsta tímabili og treysti svo sannarlega á að þær mæti allar til leiks í haust með Danna í fararbroddi.
Karfan hjá strákunum fór rólega af stað í haust, það hefur hins vegar verið mjög gaman að fylgjast með liðinu eftur áramót. Mikil þróun í gangi og margir skemmtilegir leikir. Úrslitakeppnin hefur verið frábær skemmtun, spenna, ergelsi, svekkelsi og ég tala nú ekki um gleðina sem braust út eftir síðasta leik á móti Borgnesingum þar var allur skalinn sem ég lýsti hér að ofan. Niðurstaðan var frábær. Skemmtileg uppákoma átti sér stað á leiknum þegar sessunautur minn stóð á fætur þegar Þórsarar voru 20 stigum undir. Hann sagði: „Ég hef einu sinni farið heim í miðjum leik í svipaðri stöðu og við unnum þann leik, núna ætla ég að fara og láta okkar lið njóta vafans.“ Það gekk heldur betur upp. Umræddur aðili er mikill Þórsari.
Þegar þetta er skrifað þá er ÍR næsti leikur og við sjáum til hvert næsta umferð leiðir okkur í úrslitakeppninni en eins og liðið hefur sýnt þá er miði alltaf möguleiki. Við treystum á að þið leikmennirnir haldið áfram að skemmta okkur.
Þátttaka beggja körfuboltaliðanna í úrslitakeppninni hefur lyft félaginu mikið upp.
Eingöngu jákvætt umtal og mikið af því enda eru þið gríðarlega flottir fulltrúar félagsins okkar.
Áhorfendur hafa verið mjög virkir og verið frábærir.
Handboltaliðið okkar, þar hefur á ýmsu gengið í vetur ekkert ósvipað kk í körfunni. Fór rólega af stað og margir útileikirnir voru okkur erfiðir.
En úrslitakeppnin er nýtt mót og þar hafa þeir verið mjög flottir. Við eigum góða möguleika á að gera frábæra hluti og við eigum að njóta augnabliksins og hafa gaman og taka hressilega á andstæðingum okkar. Leikur 2 á móti Fjölni sýndi okkur að við eigum fullt erindi upp um deild. Áhorfendur eru klárir í slaginn það höfum við séð bæði hér heima og á Ísafirði.
Það má alveg segja það sama um gengi handboltans í úrslitakeppninni og körfunnar.
Andinn í félaginu er gríðarlega jákvæður, umræðan jákvæð, mikil bjartsýni ríkir hjá félagsmönnum.
Það sem við þurfum núna er fleiri hendur í starf þessara tveggja deilda sem ég hef verið að skrifa um. Í dag er gaman að starfa innan Íþróttafélagsins Þórs það hefur ekki alltaf verið þannig. Oft og tíðum hefur það verið erfitt, það hefur vantað upp á meiri jákvæðni og betri árangur innan vallar. Það er allt annað í dag, ég treysti á að innan félagsmanna okkar og frábæru stuðningsmanna leynast aðilar sem tilbúnir eru að taka þátt í skemmtilegu félagsstarfi með skemmtilegu fólki og ekki síður innan um glæsilegt íþróttafólk félagsins. Við erum með flottar stjórnir í þessum deildum en getum alltaf á okkur blómum bætt.
Það er frasi sem oft er sagður á haustinn í Hamri varðandi væntingar hjá kk liðinu í fótboltanum.
„Nú er dauðafæri!“ Þá er átt við að fara upp á milli deilda að ári. Það var enginn undantekning í haust. Setningin flaug á milli manna.
Af hverju ekki? við erum með flottan hóp leikmanna, flottan hóp þjálfara, flottan hóp stuðningsmanna, flottan hóp stjórnarmanna.
Æfingaleikir lofa góðu og krafan er einföld, hafið gaman, njótið þess að fá að spila fyrir þetta stóra félag og leggið ykkur fram við það.
Við áhorfendur komum á völlinn og hvetjum ykkur til góðra verka.
Þór/KA er komið af stað í Bestu deildinni, byrjuðu á fyrirfram erfiðum útivelli. Sá leikur búinn og næsti tekur við. Ég var svo heppinn að ná að kíkja á æfingaleik á móti ÍR (5-1) á Ķanarí þar sem að ég var staddur þar á sama tíma í fríi. Liðið stóð sig vel í þeim leik og hefur sýnt okkur að þær eru til alls líklegar í sumar. Liðið datt út í undanúrslitum Lengjubikarsins og gerði fína hluti í því móti. Við erum með miklar væntingar til Þórs/KA eins og alltaf enda hefur liðið verið flaggskip félagsins undanfarin ár. Íslandsmeistarar 2012 og 2017.
Það má bæta því við að hjá Þór/KA vantar alltaf hendur til góðra verka, því hvet ég ykkur til að bjóða ykkur fram og taka þátt í skemmtilegu starfi með góðu fólki og innan um frábæra íþróttamenn.
Með Þórskveðju
Nói Björnsson formaður