Samfélagsstyrkir Norðurorku til nokkurra deilda

Athöfnin fór fram í Hofi. Myndin er af vef Norðurorku. Mynd: Auðunn Níelsson.
Athöfnin fór fram í Hofi. Myndin er af vef Norðurorku. Mynd: Auðunn Níelsson.

Í gær úthlutaði Norðurorka styrkjum til samfélagsverkefna vegna ársins 2023. Unglingaráð handbolta, hnefaleikadeildin, rafíþróttadeildin og taekwondo-deildin á meðal styrkþega. 

Norðurorka auglýsti í október 2022 eftir umsóknum um styrki til samfélagsverkefna fyrir árið 2023. Styrkirnir eru ætlaðir til menningar og lista, íþrótta- og æskulýðsstarfs og góðgerðarmála. Í frétt á vef Norðurorku af styrkveitingunni kemur fram að markmið með styrkjunum sé að styðja við sjálfsprottið starf, starfsemi frjálsra félagasamtaka og framtak einstaklinga sem stuðlar að farsælli þróun samfélagsins, lífsgæðum og fjölbreyttu mannlífi. Þar kemur einnig fram að 125 umsóknir hafi borist og fjögurra manna vinnuhópur, skipaður starfsfólki fyrirtækisins, hafi á endanum komist að þeirri niðurstöðu að veita styrki til 58 verkefna.

Nokkrir af þessum styrkjum tengjast félaginu okkar:

  • Unglingaráð handknattleiksdeildar vegna þjálfaranámskeiðs - sjá aðra frétt hér.
  • Hnefaleikadeild Þórs vegna hnefaleikaskóla fyrir unglinga
  • Unglingaráð hjá KA/Þór vegna æfingagalla fyrir iðkendur
  • Rafíþróttadeild Þórs vegna markaðssetningar með áherslu á þátttöku stúlkna
  • Taekwondo-deild Þórs vegna endurnýjunar á æfingabúnaði
  • Eva Wium Elíasdóttir – afreksstyrkur í körfubolta


Marta María Kristjánsdóttir, gjaldkeri hnefaleikadeildar, tekur við styrknum úr hendi Eyþórs Björnssonar, forstjóra Norðurorku.


Inda Björk Gunnarsdóttir, ritari unglingaráðs handknattleiksdeildar, og Eyþór Björnsson forstjóri Norðurorku.