Skallamörk Alexanders skildu á milli

Alexander Már Þorláksson skorar fyrra mark Þórs með skalla eftir hornspyrnu frá Fannari Daða. Mynd: …
Alexander Már Þorláksson skorar fyrra mark Þórs með skalla eftir hornspyrnu frá Fannari Daða. Mynd: Skapti Hallgrímsson - Akureyri.net.
...

 

Þórsarar unnu fjórða heimaleik sinn í röð í Lengjudeildinni þegar þeir fengu Selfyssinga í heimsókn. Annan heimaleikinn í röð í deildinni skoruðu Þórsarar þegar aðeins um hálf mínúta var liðin af seinni hálfleiknum. Sami maður, svipuð sending. Síðast voru það 33 sekúndur, nú voru það 26 sekúndur.

  • 1-0  •  Alexander Már Þorláksson (7')
  • 2-0  •  Alexander Már Þorláksson (46')
  • 2-1  •  Gonzalo Zamorano (63')

7. mínúta: 1-0  •  Alexander Már Þorláksson. Stoðsending: Fannar Daði Malmquist Gíslason
Þórsarar byrjuðu leikinn af meiri ákafa og það leið ekki á löngu áður en fyrsta markið leit dagsins ljós. Alexander Már Þorláksson skoraði þá eftir hornspyrnu frá Fannari Daða Malmquist Gíslasyni. Fannar sendi boltann á nærstöng og þar kom Alexander og fleytti boltanum áfram með höfðinu og í markið.

Upp úr miðjum fyrri hálfleiknum munaði minnstu að aftur kæmi mark eftir hornspyrnu frá Fannari, en Selfyssingar björguðu á línu. Aftur dauðafæri nokkrum mínútum síðar þegar Elmar Þór Jónsson átti góða sendingu inn á markteiginn frá vinstri, en Valdimar Daði Sævarsson var hársbreidd frá því að ná að snerta boltann. Selfyssingar sóttu nokkuð í sig veðrið þegar leið á fyrri hálfleikinn, en náðu ekki að skapa nægilega hættuleg færi og hvað þá að skora.

46. mínúta: 2-0  •  Alexander Már Þorláksson. Stoðsending: Elmar Þór Jónsson
Það voru ekki liðnar nema 26 sekúndur af seinni hálfleiknum þegar Þórsarar skoruðu annað markið og það þó svo Selfyssingar byrjuðu á miðju. Þórsarar unnu boltann, sending yfir til vinstri á fannar, Elmar Þór með hlaup inn fyrir og svo fyrirgjöf á kollinn á Alexaner Má sem skallaði í markið og skoraði þar með annað mark sitt og annað mark Þórsara. Margið kom svo snögglega að góður slatti af áhorfendur hafði varla skilað sér aftur í stúkuna eftir kaffiveitingarnar í leikhléinu. 

Fannar Daði var svo hársbreidd frá því að bæta þriðja markinu við tíu mínútum síðar, en meistaraleg markvarsla rændi hann þeirri gleði. 

63. mínúta: 2-1  •  Gonzalo Zamorano. Stoðsending: Guðmundur Tyrfingsson
Selfyssingar minnkuðu muninn með marki sem var ótrúlega svipað markinu sem Ægir skoraði á Þórsvellinum í síðasta heimaleik okkar í deildinni. Selfyssingar með einfalda sendingu inn fyrir vörnina beint fyrir framan markið og skoruðu. Munaði þó ekki miklu að Aron Birkir næði að verja.

Ekki löngu síðar bjargaði Aron Birkir frábærlega þegar Zamorano fékk frítt skot úr teignum.

80. mínúta: 2-1  •  Guðmundur Tyrfingsson fær vítaspyrnu og misnotar hana
Vítaspyrna dæmd eftir að Guðmundur Tyrfingsson fékk sendingu inn fyrir og var einn á móti Aroni Birki, sem varði skotið, en Guðmundur féll og dómarinn ákvað að gefa vítaspyrnu. Guðmundur fór sjálfur á vítapunktinn, en skaut í stöngina og aftur fyrir við mikinn fögnuð stuðningsmanna Þórs. 

Bjarni Guðjón Brynjólfsson var nálægt því að gulltryggja sigurinn á 90. mínútu þegar fékk boltann óvænt á miðjunni eftir mistök varnarmanns. Bjarni brunaði í átt að markinu, en annar varnarmaður náði að elta hann uppi og bjarga í horn.

Leikurinn var í beinni á YouTube-rás Lengjudeildarinnar. Hér er hægt að horfa á upptökuna:

Með sigrinum lyftu Þórsarar sér upp í 3. sæti deildarinnar með 12 stig, einu meira en Grindavík og tveimur meira en Selfoss. Næsti leikur liðsins er útileikur gegn Njarðvíkingum laugardaginn 24. júní kl. 16:00.