Stelpurnar freista þess að vinna sjöunda leikinn í röð

Stelpurnar freista þess að vinna sjöunda leikinn í röð

Á morgun, miðvikudag tekur Þór á móti Hamri/Þór í 1. deild kvenna í körfubolta í leik sem fram fer í íþróttahöllinni og hefst klukkan 19:15.

Þórsliðið hefur verið á mikilli siglingu og hefur liðið t.a.m. unni sex leiki í röð þ.e. alla leiki ársins 2023. Gestir okkar sem er sameiginlegt Hamars og Þórs úr Þorlákshöfn sitja sem stendur í fimmta sæti deildarinnar með 20 stig en okkar konur eru í öðru sæti deildarinnar með 30 stig líkt og Stjarnan sem á þó leik til góða.

Þór og Hamar/Þór hafa mæst í tvígang á yfirstandandi tímabili og skemmst er frá því að segja að stelpurnar okkar unnu þá báða. Þegar liðin mættust í höllinni í október urðu lokatölur 81:61 en þegar liðin mættust syðra í desember urðu lokatölur leiksins 71:79.

Í síðustu umferð hafði Hamar/Þór betur gegn b liði Breiðabliks en á sama tíma sótti Þór sigur gegn sterku liði Snæfells 60:75 í leik sem fram fór í Stykkishólmi.

Þótt munurinn á liðunum sé heil 10 stig og Hamar/Þór sé þremur sætum neðar á töflunni verða menn að hafa í huga að sunnankonur eru með hörku lið sem ekki má vanmeta.

Staðan í deildinni: https://kki.is/motamal/leikir-og-urslit/motayfirlit/Stada?league_id=231&season_id=undefined

Það er afar mikilvægt að stuðningsmenn Þórs fjölmenni á leikinn og styðji liðið til sigurs. Stelpurnar okkar og Danni þjálfari hafa sett stefnuna á úrslitakeppnina sem er innan seilingar, þangað ætlar liðið og á þeirri vegferð er bráðnauðsýnlegt að standa þétt að baki liðsins hér eftir sem hingað til.

Stuðningsmenn Þórs hafa verið frábærir í vetur og klárlega í hópi bestu stuðningsmanna landsins. Hlutdeild þeirra í velgengni liðsins í vetur má sannarlega ekki vanmeta.

Leikur liðanna hefst klukkan 19:15 en fyrir þá sem ekki komast á leikinn þá verður hann í beinu streymi á Þór TV https://www.livey.events/thortv

Miðaverð á leikinn er 2.000 krónur og frítt fyrir 16 ára og yngri.

Við hvetjum fólk til þess að kynna sér þá kosti sem fylgir því að vera meðlimur í Sjötta manninum stuðningsmannaklúbb deildarinnar. Um klúbbinn og skráningu má finna á eftirfarandi slóð https://www.thorsport.is/korfubolti/arskort

Fjölmennum á leikinn og styðja Þór til sigurs.

Meistaraflokkur kvenna í körfubolta hefur unnið fjóra titla í efstu deild í körfubolta, Íslandsmeistarar 1969, 1971 og 1976 og bikarmeistarar1975.

Meistaraflokkur kvenna í körfubolta hefur unnið fjóra titla í efstu deild í körfubolta, Íslandsmeistarar 1969, 1971 og 1976 og bikarmeistarar1975.

Áfram Þór alltaf, alls staðar