Tap gegn botnliðinu, en sæti í úrslitakeppni líklegt

KA/Þór tókst ekki að sækja tvö stig í Kópavoginn þegar liðið mætti botnliði HK í Olísdeildinni í handbolta í dag.

Eftir að jafnt var á upphafsmínútunum náði KA/Þór forystunni og hélt henni út fyrri hálfleikinn, mest fjögurra marka mun, en leiddu með þremur í leikhléi, 11-14. HK saxaði svo á forskotið og náði loks að jafna eftir um 12 mínútna leik í síðari hálfleiknum, en KA/Þór gekk illa að skora og kom fyrsta mark liðsins í seinni hálfleik eftir um níu mínútur.

HK náði svo forystunni þegar rúmur stundarfjórðungur lifði leiks og leiddi að mestu út leikinn. KA/Þór náði þó loks að jafna leikinn aftur þegar fjórar mínútur voru til leiksloka, 23-23. HK skoraði þá tvö mörk og leiddi 25-23, KA/Þór minnkaði muninn í eitt mark og fékk tækifæri til að jafna leikinn eftir að Matea varði skot, en sú sókn fór forgörðum.

Lokatölur: HK – KA/Þór 25-24 (11-14)

KA/Þór lék án landsliðskvennanna Rutar Jónsdóttur og Unnar Ómarsddóttur, en Unnur er kominn í frí frá handboltanum þar sem hún er barnshafandi, eins og sagt var frá í frétt á Akureyri.net  nýlega. KA/Þór hefur 12 stig að loknum 18 leikjum og er í 5. sætinu, en Haukar hafa einnig 12 stig. KA/Þór á eftir þrjá leiki í deildinni, en Haukar tvo. Fyrir leikinn í dag hafði HK aðeins unnið einn leik, en sá sigur kom einnig gegn KA/Þór.

Mörk og varin skot

HK
Mörk: Embla Steindórsdóttir 8, Inga Dís Jóhannsdóttir 5, Alfa Brá Hagalín 4, Aníta Eik J’onsdóttir 3, Sóley Ívarsdóttir 3, Jóhanna Lind Jónasdóttir 1, Leandra Náttsól Salvamoser 1.
Varin skot: Ethel Gyða Bjarnasen 8 (25%).

KA/Þór
Mörk: Ida Hoberg 7, Kristín A. Jóhannsdóttir 4, Lydía Gunnþórsdóttir 4, Hildur Lilja Jónsdóttir 4, Natahlia Soares 3, Anna Mary Jónsdóttir 1, Anna Þyrí Halldórsdóttir 1.
Varin skot: Matea Lonac 11 (35,5%).

Ítarleg tölfræði leiksins á Hbstatz.is.
Staðan og úrslit leikja í deildinni á vef HSÍ – leikir dagsins ekki komnir inn þegar þessi frétt birtist.