Tap gegn toppliði HK

Árni Rúnar Jóhannsson, formaður handknattleiksdeildar Þórs, og Viðar Ernir Reimarsson, Þórsari leiks…
Árni Rúnar Jóhannsson, formaður handknattleiksdeildar Þórs, og Viðar Ernir Reimarsson, Þórsari leiksins, með gjafabréf frá Sprettinum. Mynd: HarIngo

Þórsarar spiluðu í kvöld fyrsta keppnisleik sinn í handbolta í sjö vikur. Topplið HK tók bæði stigin með heim.

Eins og kunnugt er hafa orðið breytingar á liðsskipan hjá okkar mönnum. Tveir af erlendu leikmönnunum eru ekki lengur með liðinu, þeir Kostadin Petrov og Josip Vekic. Þórsurum barst reyndar liðsstyrkur á lokadegi félagaskiptagluggans þegar Jóhann Einarsson gekk til liðs við félagið frá K.A. Hann var lánaður til Þórs í fyrravetur, en gengur nú til liðs við Þór með félagaskiptum. Þá er Viðar Ernir Reimarsson aftur kominn út á gólfið, en hann hefur lítið sem ekkert spilað það sem af er tímabili vegna þrálátra meiðsla.

Gestirnir voru aðeins sneggri í gang og skoruðu tvö fyrstu mörk leiksins, en Þórsarar jöfnuðu í 4-4 og aftur í 6-6. Það sem eftir var fyrri hálfleiks höfðu gestirnir síðan frumkvæðið og með eins til þriggja marka forystu. Staðan 12-14 í leikhléi. Markverðir beggja liða með í kringum 30% markvörslu í fyrri hálfleiknum.

HK hélt svo áfram frumkvæðinu í seinni hálfleiknum, en náði lengi vel ekki að slíta sig frá Þórsurum. Munurinn var 1-3 mörk þar til um átta mínútur voru eftir, en þá skildu leiðir og gestirnir juku muninn og hertu tökin á leiknum. Kannski var það breiddin að segja til sín, en frammistaða Þórsara þegar litið er á leikinn í heild var þó vel ásættanleg miðað við aðstæður, nokkrir leikmenn meiddir og nánast að „spila á öðrum fætinum“, auk þeirra breytinga sem nefndar voru hér að framan.

Gestirnir sigldu sigrinum örugglega heim á lokakaflanum á sama tíma og sóknarleikurinn gekk brösuglega hjá Þórsurum, sérstaklega að nýta þau færi sem liðið náði þó að skapa sér. Þau fóru mörg forgörðum á lokakaflanum með aðstoð markvarða HK. HK vann að lokum sex marka sigur, 24-30.

Þórsarar sitja í sjöunda sæti deildarinnar með tíu stig úr 12 leikjum. Næsti leikur verður útileikur gegn ungmennaliði K.A. föstudaginn 10. febrúar.

Mörk og varin skot

Þór
Mörk: Jóhann Geir Sævarsson 5, Viðar Ernir Reimarsson 5, Arnór Þorri Þorsteinsson 4, Andri Snær Jóhannsson 3, Jón Ólafur Þorsteinsson 2, Hlynur Elmar Matthíasson 2, Aðalsteinn Ernir Bergþórsson 1, Halldór Yngvi Jónsson 1, Jonn Rói Tórfinsson 1.
Varin skot: Arnar Þór Fylkisson 9 (23,1%).

HK
Mörk: Hafsteinn Óli Berg Ramos Rocha 6, Aron Gauti Óskarsson 5, Símon Michael Guðjónsson 5, Kristján Ottó Hjálmsson 4, Hjörtur Ingi Halldórsson 3, Elías Björgvin Sigurðsson 3, Styrmir Máni Arnarsson 2, Kári Tómas Hauksson 1, Kristján Pétur Barðason 1.
Varin skot: Sigurjón Guðmundsson 6, Róbert Örn Karlsson 6 (33,3%).

Tölfræði leiksins á Hbstatz.is.