Tap í Höllinni

Er hann ofan í eða verður barátta um frákast? Hver veit? Þarna má meðal annarra sjá Þórsana Andra Má…
Er hann ofan í eða verður barátta um frákast? Hver veit? Þarna má meðal annarra sjá Þórsana Andra Má Jóhannesson, Rúnar Þór Ragnarsson og Zak David Harris. Mynd: Skapti Hallgrímsson - Akureyri.net.

Þór mætti Fjölni í 1. deild karla í körfubolta í gærkvöld og máttu okkar menn sætta sig við 34ra stiga tap.

Þór tefldi fram aðeins sterkara liði en í síðasta leik gegn ÍA. Baldur Örn Jóhannesson kom aftur inn í hópinn eftir að hafa misst af síðasta leik vegna meiðsla. Toni Cutuk og Hlynur Freyr Einarsson eru hins vegar báðir enn fjarri vegna meiðsla. Fjölnir, sem um tíma var í einu af neðri sætum deildarinnar hefur sótt talsvert í sig veðrið og klifrað upp töfluna. Fyrir leikinn var Fjölnir í 5. sætinu með níu sigra í 20 leikjum, á meðan Þór situr enn á botninum með einn sigur í 18 leikjum.

Fjölnir tók fljótt frumkvæðið og staðan orðin 2-12 eftir tæplega þriggja mínútna leik. Þessi munur hélst nokkurn veginn út fyrsta leikhlutann, þar til alveg í lokin þegar gestirnir juku muninn í 15 stig með þriggja stiga flautukörfu í lokin og staðan 18-33. Annar leikhluti hófst með svipuðum hætti og sá fyrsti, 2-12 eftir þrjár mínútur og Fjölnismenn komnir með 22ja stiga forystu og 24ra stiga forystu í lok fyrri hálfleiks, 38-62.

Fjölnismenn héldu svo áfram að auka forystuna jafnt og þétt út þriðja leikhluta, munurinn orðin 35 stig þegar hann var rúmlega hálfnaður. Staðan orðin 54-90 áður en kom að fjórða leikhlutanum. Þórsarar náðu að lagfæra tölurnar örlítið í lokafjórðungnum, unnu hann 28-26. Lokatölur 82-116.

Allir 11 leikmenn Þórs komu við sögu í leiknum, þar á meðal þrír leikmenn á aldrinum 16-17 ára, þeir Arngrímur Friðrik Arngrímsson (2005), Eyþór Ásgrímsson (2005) og Fannar Ingi Kristínarson (2006). 

Stig/fráköst/stoðsendingar

Zak Harris 18/3/2, Andri Már Jóhannesson 16/6/1, Smári Jónsson 15/3/9, Baldur Örn Jóhannesson 11/8/3, Páll Nóel Hjálmarsson 6/5/3, Róbert Orri Heiðmarsson 4/8/0, Fannar Ingi Kristínarson 4/3/1, Rúnar Þór Ragnarsson 4/3/0, Bergur Ingi Óskarsson 3/0/0, Eyþór Ásgrímsson 1/1/0.

18-33 • 20-29 • (38-62) • 16-28 • 28-26 • 82-116

Ítarlegri tölfræði á vef KKÍ. 

Næsti leikur Þórsliðsins er útileikur á Hornafirði föstudaginn 17. febrúar, gegn Sindra, en eini sigur Þórsliðsins í vetur kom einmitt gegn Hornfirðingum í Höllinni 9. desember.

Leikjadagskráin hefur verið þétt að undanförnu, meðal annars vegna frestana, og verður það áfram því strax mánudaginn 20. febrúar fer fram frestaður leikur gegn Hrunamönnum í Höllinni og svo útileikur gegn Skallagrími í Borgarnesi föstudaginn 24. febrúar.

Helstu tölur einstakra leikmanna: