Karfan er tóm.
- Deildir
- Fréttir & Greinar
- Fræðsla & Forvarnir
- Félagið
- Miðlar & Myndefni
- Ábending um heiðursmerki
- Þór TV
Fámennur en öflugur hópur stuðningsmanna fylgdi Þórsliðinu í Stykkishólm í gær þegar Þór heimsótti Snæfell í 1. deild kvenna í körfubolta.
Leik liðanna var streymt á Veo Live og heyrðist vel í stuðningssveit Þórsara í útsendingunni. Hér var um að ræða nokkra drengi úr 10. flokki Þórs og tók einn faðirinn í hópnum sig til og keyrði þá í Stykkishólm til að hjálpa liðinu. Og það skipti sannarlega máli. Þegar heimasíðan fékk meðfylgjandi myndir hjá Daníel Andra Halldórssyni, þjálfara Þórs, á heimleiðinni í gær voru skilaboðin þessi: „Þeir eiga risastóran hlut í þessum sigri, eignuðu sér stúkuna."
Það verður hins vegar ekki af stelpunum tekið að þær voru öflugar í gær. Til dæmis byrjuðu þær fyrri hálfleikin á að komast í 7-0 og í upphafi seinni hálfleiks skoruðu þær níu fyrstu stigin. Snæfell náði að minnka muninn verulega í þriðja fjórðungi, en í þeim fjórða má segja að lið Snæfells hafi verið kafsiglt.
Tölurnar úr leikhlutunum: 15-25 • 14-15 • (29-40) • 21-12 • 10-23 • 60-75.
Eins og fram hefur komið var leikurinn gríðarlega mikilvægur fyrir bæði lið því þau eru að berjast um sæti á toppi deildarinnar. Fjögur lið fara í úrslitakeppni, 1. sæti gegn 4. sæti og svo mætast liðin í 2. og 3. sæti. Fyrir leikinn hafði Þór tveggja stiga forystu á Snæfell, en með sigri hefði Snæfell náð 2. sætinu - í bili að minnsta kosti - vegna úrslita í innbyrðis viðureignum. Þreföld umferð er spiluð í deildinni og höfðu liðin unnið hvort sinn heimaleik fyrir þessa viðureign. En baráttan stendur ekki aðeins um 2. sætið því besta staðan fyrir úrslitakeppni er auðvitað að vera á toppnum. Úrslit gærkvöldsins hleypa mikilli spennu í deildina fyrir lokaumferðirnar því Stjarnan, sem er í efst asætinu, tapaði sínum leik gegn Ármanni.
Eftir leiki gærkvöldsins eru Stjarnan og Þór bæði með 15 sigra, en Stjarnan á leik til góða. Þessi lið eiga hins vegar eftir að mætast í Garðabænum og fer sá leikur fram miðvikudaginn 8. mars. Það lið sem vinnur þann leik hefur betri árangur í innbyrðis viðureignum þessara liða, sem skiptir máli ef liðin enda jöfn, því þau hafa nú þegar unnið hvort sinn heimaleikinn. Tapleikur Stjörnunnar hér á Akureyri 18. janúar var fyrsti tapleikur Stjörnunnar í deildinni. Liðið hefur síðan þá tapað tveimur leikjum í viðbót, sem hefur hleypt aukinni spennu í toppbaráttuna undanfarnar vikur.
Leikir sem Stjarnan, Þór og Snæfell eiga eftir:
Stjarnan: KR (h), Breiðablik b (ú), Þór (h), Aþena/Leiknir/UMFK (h), Tindastóll (ú) Snæfell (h)
Þór: Hamar/Þór (h), Aþena/Leiknir/UMFK (ú), Stjarnan (ú), KR (h), Breiðablik b (ú)
Snæfell: Tindastóll (ú), KR (h), Ármann (h), Hamar/Þór (h), Aþena/Leiknir/UMFK (ú), Stjarnan (ú)
Staðan í deildinni - skjáskot af kki.is.
Þórsstelpurnar þakka stuðningsmönnum fyrir þeirra framlag. Myndir: Daníel Andri Halldórsson.
Það þarf ekki marga, og þegar við erum fámenn heyrist bara meira í hverju og einu.
Leik lokið með sigri, drengirnir enn á fullu. Neðst á myndinni má sjá Hrefnu Ottósdóttur á leið til klefa eftir góða frammistöðu. Hrefna skoraði flest stig Þórsara, 20.
Áfram Þór!