Karfan er tóm.
- Deildir
- Fréttir & Greinar
- Fræðsla & Forvarnir
- Félagið
- Miðlar & Myndefni
- Ábending um heiðursmerki
- Þór TV
Þór/KA mætir liði Tindastóls á Þórsvellinum í kvöld kl. 20. Upphitun verður á pallinum við Hamar frá kl. 19.
Þessi leikur átti upphaflega að vera á Sauðárkróki, en skipt var á heimaleikjum og spilað á Þórsvellinum í kvöld, en á Króknum í lok ágúst.
Fyrir leik verður upphitun frá kl. 19, grillið á fullu á pallinum við Hamar, borgarar og kaldir drykkir og því engin ástæða til að hafa áhyggjur af kvöldmatnum, bara mæta tímanlega á leikinn. Leikurinn sjálfur hefst kl. 20. Miðasala er í Stubb-appinu og við hliðið.
Leikurinn er í 9. umferð Bestu deildarinnar og hinn venjulegi hluti mótsins þar með hálfnaður þegar þessari umferð lýkur. Fyrir leikinn er Þór/KA í 5. sæti deildarinnar með 12 stig, fjóra sigra og fjögur töp. Tindastóll hefur unnið tvo leiki og gert tvö jafntefli, er því með átta stig og situr í 8. sætinu.
Tvær viðureignir í efstu deild
Þessi lið hafa aðeins mæst tvisvar í efstu deild enda hefur Tindastóll aðeins einu sinni áður spilað í efstu deild. Það var sumarið 2021.
Þór/KA vann þá fyrri leikinn á Sauðárkróki 2-1, þar sem Muriell Tiernan kom Tindastóli yfir í fyrri hálfleik, en Sandra Nabweteme skoraði tvívegis í seinni hálfleik, síðara markið á fjórðu mínútu uppbótartíma. Þór/KA vann seinni leikinn 1-0 og þar var það Karen María Sigurgeirsdóttir sem skoraði eina mark leiksins á 19. mínútu. Þessi lið hafa einu sinni mæst í bikarkeppninni (2007) og einu sinni í Lengjubikarnum (2021), auk nokkurra leikja í Kjarnafæðismótinu.