Þriðja þrenna Söndru Maríu, sjö mörk frá Þór/KA, sigur og sæti í undanúrslitum

Kampakátar í leikslok í dag.
Kampakátar í leikslok í dag.

Þór/KA sigraði Selfoss með sjö mörkum gegn tveimur í lokaleik liðsins í riðli 1 í A-deild Lengjubikarsins í Boganum í dag. Sandra María Jessen skoraði þrjú mörk og hefur samtals skorað 11 mörk í mótinu.

Selfyssingar komust yfir á 17. mínútu, en Tahnai Annis jafnaði undir lok fyrri hálfleiks, staðan 1-1 í leikhléi. Sandra María kom Þór/KA í 2-1 með marki úr víti á 51. mínútu og 3-1 með markí á 69. mínútu. Agnes Birta Stefánsdóttir skoraði fjórða mark Þórs/KA á 75. mínútu og stuttu síðar gerðu gestirnir sjálfsmark sem Amalía Árnadóttir á nokkurn heiður að. Sandra María kláraði svo þrennuna þegar hún kom Þór/KA í 6-1 á 81. mínútu og Emelía Ósk Kruger, sem komið hafði inn á sem varamaður tíu mínútum áður, bætti við sjöunda markinu á 90. mínútunni. Katrín Ágústsdóttir skoraði annað mark gestanna á fyrstu mínútu uppbótartíma. Lokatölurnar urðu því 7-2.

Með sigrinum í dag og 2. sæti riðilsins tryggði Þór/KA sér sæti í undanúrslitum þar sem liðið á að mæta Breiðabliki, sigurliðinu úr riðli 2. 

Þetta var þriðja þrenna Söndru Maríu í mótinu, en hún hefur samtals skorað 11 mörk í Lengjubikarnum, auk þess sem hún skoraði tíu mörk í Kjarnafæðismótinu. 

Nánar er fjallað um leikinn á thorka.is.


Sandra María Jessen í leik gegn Selfossi í maí 2022. Mynd: Þórir Tryggva.