Tímabilið hjá Þórsstelpum hefst með stórleik

Hin unga og efnilega, Emma Karólína Snæbjarnardóttir mun fá stórt hlutverk í Þórsliðinu í vetur
Hin unga og efnilega, Emma Karólína Snæbjarnardóttir mun fá stórt hlutverk í Þórsliðinu í vetur

Tímabilið í körfuboltanum hefst á morgun með hinum árlegu leikjum deildar og bikarmeistara sem nefnist meistarar meistaranna! Okkar stelpur mæta Keflavíkurstúlkum í Blue-höllinni í Keflavík. Óhætt er að segja að verkefnið sé afar verðugt enda heimastúlkur ríkjandi Íslands- og Bikarmeistarar frá síðasta tímabili.

Fyrsti deildarleikur er svo strax á þriðjudag þegar stelpurnar spila annan útileik við Valskonur. 

Í dag var kynningarfundur Bónus-deildanna (efstu deilda) í körfubolta og þar var birt spá forráðamanna félaganna fyrir komandi tímabil. Okkar stelpum var þar spáð 7. sæti af tíu liðum en í fyrra endaði liðið í 6-7.sæti í deildarkeppninni.

Tímabilið leggst vel í okkar allra besta, Daníel Andra Halldórsson, þjálfara stelpnanna:

,,Ég held að bæði ég og hópurinn séum bara mjög spennt fyrir því að tímabilið hefjist - við erum komin með góð púsl sem ég tel passa vel saman og stefnum við klárlega hærra en okkur er spáð."