Karfan er tóm.
- Deildir
- Fréttir & Greinar
- Fræðsla & Forvarnir
- Félagið
- Miðlar & Myndefni
- Ábending um heiðursmerki
- Þór TV
Toppslagur þegar Þór tekur á móti KR
Á morgun, miðvikudag tekur Þór á móti KR í 1. deild kvenna í körfubolta í leik sem fram fer í íþróttahöllinni og hefst klukkan 19:15.
Nú er um að gera að fjölmenna á leikinn þar sem þetta verður síðasti heimaleikur Þórs í deildarkeppninni.
Þegar liðin mætast situr Þór í öðru sæti deildarinnar með 34 stig en KR vermir fjórða sætið með 26 stig.
Þór og KR hafa mæst í tvígang í deildinni í vetur og hafði Þór betur í báðum viðureignunum. Í fyrri leiknum sem fram fór í íþróttahöllinni vann Þór með tveimur stigum 71:69 en þegar liðin mættust á Meistaravöllum hafði Þór fjögurra stiga sigur 79:83. Eins og sést á úrslitum þessara tveggja leikja má búast við jöfnum og skemmtilegum leik.
KR hefur unnið tvo síðustu leiki sína þ.e. heimaleikir gegn Ármanni og b liði Breiðabliks.
Síðustu tveir leikir Þórs voru á útivelli gegn Aþenu sem Þór vann með sex stigum 65:71 og svo gegn Stjörnunni sem tapaðist 97:78.
Lokaleikur Þórs í deildinni verður svo útileikur gegn b liði Breiðabliks sem fram fer í Smáranum næstkomandi laugardaginn, 18. mars og hefst klukkan 16:00.
Staðan í dag er sú að Stjarnan er búin að tryggja sér sigur í deildinni en þegar deildarkeppninni lýkur tekur við ný keppni, úrslitakeppni liða í 1.-4. sæti um laust sæti í deild þeirra bestu. Baráttan heldur sem sagt áfram, meira fjör og meira gaman.
Við hvetjum fólk til þess að fjölmenna á leikinn og styðja Þór til sigurs.
Leikurinn hefst klukkan 19:15. Miðaverð á leikinn er 2.000 krónur og frítt fyrir 16 ára og yngri.
Fyrir þá sem ekki komast á leikinn þá verður hann í beinu streymi á Þór TV https://www.livey.events/thortv
Við hvetjum fólk til þess að kynna sér þá kosti sem fylgir því að vera meðlimur í Sjötta manninum stuðningsmannaklúbb deildarinnar. Um klúbbinn og skráningu má finna á eftirfarandi slóð https://www.thorsport.is/korfubolti/arskort
Áfram Þór alltaf, alls staðar