Tveir sigrar og jafntefli í Kjarnafæðismótinu

Flestum leikjum liðanna frá Þór og Þór/KA er streymt á Þór TV.
Flestum leikjum liðanna frá Þór og Þór/KA er streymt á Þór TV.

Lið frá Þór og Þór/KA spiluðu þrjá leiki í Kjarnafæðismótinu í dag, unnu tvo og gerðu eitt jafntefli. 

Fyrsta viðureign dagsins var á milli Þórs og KFA í riðli 2 í A-deild mótsins. Leikurinn var bragðdaufur lengst af, sérstaklega fyrsta hálftímann. Má eiginlega orða það þannig að spjöldin hafi lengst af verið fleiri en færin. Þórsarar fengu þrjú slík og gestirnir fimm. Niðurstaðan varð 1-0 sigur og var það Vilhelm Ottó Biering Ottósson sem skoraði markið á 56. mínútu. Eins og fyrr í mótinu voru margir ungir leikmenn í hópnum hjá Þór, þar á meðal fjórir fæddir 2008.

Þórsarar hafa leikið þrjá leiki í riðlinum og unnið alla. Lokaleikur liðsins í riðlinum verður gegn Magna sunnudaginn 22. janúar kl. 12:15 í Boganum.

Leikskýrslan á vef KSÍ.
Mótið á vef KSÍ.

Kvennadeildin

Önnur viðureign dagsins var í Kvennadeild Kjarnafæðismótsins, þegar Þór/KA2 mætti liði Tindastóls. Þar fóru stelpurnar okkar með 2-1 sigur. Amalía Árnadóttir kom Þór/KA yfir á 38. mínútu, staðan 1-0 eftir fyrri hálfleikinn. Hulda Ósk Jónsdóttir jók forystuna í tvö mörk á 63. mínútu, en María Dögg Jóhannesdóttir minnkaði muninn í 2-1 átta mínútum síðar. Lokatölurnar urðu 2-1. 

Leikskýrslan á vef KSÍ.
Mótið á vef KSÍ.

A-deild karla - riðill 1

Þriðja viðureign dagsins var hjá 2. flokki Þórs, eða Þór 2 eins og liðið heitir í þessu móti. Þar voru Skagfirðingar einnig mótherjar. Þórsarar komust í 2-0 með mörkum frá Atla Þór Sindrasyni strax á 13. mínútu og svo Bjarma Má Eiríkssyni á 51. mínútu, en Tindastóll náði að jafna með tveimur mörkum á síðasta stundarfjórðungnum.

Þórsarar hafa spilað tvo leiki í riðlinum, gert eitt jafntefli og tapað einum. Næsti leikur liðsins er á dagskrá laugardaginn 28. janúar kl. 19 þegar strákarnir mæta liði Dalvíkur/Reynis.

Leikskýrslan á vef KSÍ.
Mótið á vef KSÍ.