Karfan er tóm.
- Deildir
- Fréttir & Greinar
- Fræðsla & Forvarnir
- Félagið
- Miðlar & Myndefni
- Ábending um heiðursmerki
- Þór TV
Undanúrslitarimma Þórs og Snæfells
Á morgun laugardag tekur Þór á móti Snæfelli í úrslitakeppni 1. deildar kvenna í körfubolta í leik sem fram fer í íþróttahöllinni og hefst klukkan 17:00. Fyrirkomulag úrslitakeppninnar er þannig að það lið sem fyrr vinnur þrjá leiki kemst í úrslit gegn sigurvegara úr leikjum Stjörnunnar og KR þar sem barist verður um eitt laust sæti í efstu deild.
Árangur Þórs í vetur var frábær, liðið lauk keppni í öðru sætinu með 36 stig en Snæfell í þriðja sætinu með 34 stig.
Þór og Snæfell mættust í þrígang í deildinni í vetur og hafði Þór betur í tveimur viðureignunum úti og heima en Snæfell vann einn leik á heimavelli.
Eins og sést á lokastöðu liðanna í deildinni eru hér á ferð tvö jöfn lið og ljóst að þetta verða jafnir og spennandi leikir. En þegar rimman hefst er Þór í þeirri aðstöðu að komi til oddaleiks þá á Þór heimaleikjaréttinn.
Úrslitakeppnin er veisla sem engin ætti að láta framhjá sér fara. Það er nefnilega ekki á hverju ári sem kvennalið Þórs kemst í úrslitakeppnina. Það gerðist síðast tímabilið 2017-2018 en þá lék liðið undir stjórn Helga Rúnars Bragasonar þeim snjalla þjálfara.
Í þeirri rimmu mætti Þór liði Fjölnis úr Grafarvogi sem fagnaði 3:1 sigri gegn okkar konum. Eini sigurleikur Þórs í þeirri rimmu kom í sem fram fór á heimavelli Fjölnis.
Heimaleikir Þórs í vetur hafa verið hin mesta og besta skemmtun en liðið vann 10 af 12 heimaleikjunum og stemningin meðal áhorfenda verið hreint út sagt frábær. Stuðningsmenn Þórs sýndu og sönnuðu í vetur að þeir eru þeir bestu sem völ er á.
Heiða Hlín fyrirliði Þórs segir í viðtali við ÞórTV að stuðningur áhorfenda verið aldrei ofmetinn. Hún hvetur bæjarbúa til að fjölmenna í höllina og hafi einhver verið með önnur plön að í öllum bænum sláið því á frest og komið í höllina.
Leikurinn hefst klukkan 17:00 og miðaverð á leikinn er 2.000 krónur og frítt fyrir 16 ára og yngri.
Fyrir þá sem ekki komast á leikinn bendum við á að leiknum verður streymt á ÞórTV hér er svo slóð á streymið.
Fjölmennum í höllina, mætum í rauðu og hvítu og hvetjum stelpurnar okkar til sigurs.
Áfram Þór alltaf, alls staðar