Sara Hrönn Viðarsdóttir úr stjórn handknattleiksdeildar Þórs handsalar samninginn við Sævar Þór Stefánsson.
Handknattleiksdeild Þórs hefur gert samninga við tvo leikmenn - báða með millinafnið Þór! Sævar Þór Stefánsson og Heiðar Þór Aðalsteinsson bætast í leikmannahópinn fyrir úrslitaeinvígið við Fjölni sem hefst í kvöld.
Sævar Þór Stefánsson er efnilegur línumaður fæddur 2006 og hefur verið einn af burðarásum síns árgangs frá því að hann byrjaði að æfa handbolta. Sævar Þór hefur verið í æfingahópum U15 og U16 ára landsliðum Íslands, síðast í mars fyrir ári síðan. Sævar Þór er einn af fjölmörgum ungum og spennandi leikmönnum okkar Þórsara og með fyrstu skrefum deildarinnar í þeirri vegferð að byggja upp þéttan og góðan kjarna af ungum leikmönnum.
Heiðar Þór Aðalsteinsson hornamaður ákvað að taka skóna af hillunni og skrifaði í gær undir leikmannasamning við handknattleiksdeildina og mun hjálpa liðinu í gegnum úrslitakeppnina þar sem margir af leikmönnum liðsins eru tæpir og jafnvel meiddir. Heiðar er öllum hnútum kunnugur hjá Þór enda uppalinn í Þorpinu. Hann spilaði síðast með Val en þar á undan Akureyri handboltafélagi.
Heiðar Þór Aðalsteinsson í leik með Akureyri handboltafélagi. Mynd: Þórir Tryggva.