Upplýstur göngustígur milli Bogans og Skarðshlíðar

Öryggi barna á leið milli Bogans og strætisvagnastöðvar við Skarðshlíð hefur verið aukið með nýjum göngustíg.

Gönguleið milli Bogans og stoppistöðvar strætisvagna við Skarðshlíð er nú orðin mun öruggari en verið hefur undanfarna vetur. Lagður hefur verið göngustígur meðfram girðingunni við Skansinn (norðan við Bogann), út að stoppistöðinni í Skarðshlíðinni og er nú unnið að því að koma upp lýsingu á stígnum.

Eins og notendur Bogans vita hefur snjó sem rutt hefur verið af bílastæðinu iðulega verið ýtt upp í hrúgu einmitt á þessari leið, en nú verður breyting á eins og sást í snjóakaflanum um daginn þegar snjó var ýtt upp fyrir bílastæðin, á grasblettinn í hallanum við Skarðshlíðina. Þannig verður leiðin ávallt greið eftir göngustígnum og börnum því mun minni hætta búin en verið hefur í fjölda ára þegar þau hafa þurft að ganga meðfram snjóhrúgum, úti á bílastæðinu, til að komast þarna á milli.