Karfan er tóm.
- Deildir
- Fréttir & Greinar
- Fræðsla & Forvarnir
- Félagið
- Miðlar & Myndefni
- Ábending um heiðursmerki
- Þór TV
Sjálfboðaliðar eru oft ósýnilega aflið sem knýr íþróttastarfið áfram og því miður þá gleymist allt of oft að þakka þeim fyrir sitt óeigingjarna framlag. Íþróttafélagið Þór væri sennilega ekki merkilegt ef ekki væri fyrir sjálfboðaliða og því ætlum við hjá heimasíðunni að halda áfram að ræða við nokkra af okkar frábæru sjálfboðaliðum á næstu vikum. Að þessu sinni er komið að Dóru Sif Sigtryggsdóttur.
Dóra hefur haft marga hatta í starfinu hjá Þór en í dag er hún formaður kvennaráðs Þórs/KA. Hún segist hafa verið Þórsari frá fyrstu mínútu. „Ég varð Þórsari bara við fyrsta andardrátt minnir mig. Ég fékk félagsandann í vöggugjöf. Ólst upp í „Þórsraðhúsinu“ í Dalsgerði fram að skólagöngu. Það voru tvö Þórsraðhús í hverfinu eitt í Dalgerði og eitt í Grundargerði. Þau voru sko máluð hvít og rauð þannig að trúarbrögðin voru alvöru í þá daga,“ segir Dóra sem spilaði sjálf, bæði handbolta og fótbolta.
„Ég æfði fótbolta og handbolta með Þór. Valdi svo að einbeita mér að handboltanum og spilaði í sameiginlegu liði Þórs og KA sem hét ÍBA á þeim árum og þá kynntist ég ennþá fleiri snillingum. Það stendur líka upp úr að hafa æft og spilað með sameiginlegu liði og vera svo í dag í forsvari fyrir sameiginlegt lið Þór/KA í fótboltanum og þar er ég enn að kynnast snillingum sem er svo dýrmætt. Sameining félaganna í handbolta og fótbolta kvenna eru eitt besta framfaraskref sem hefur verið tekið í bænum og veitir stúlkum og konum á Akureyri tækifæri til að stunda sínar íþróttagreinar í háum gæðaflokki og vera á meðal þeirra fremstu sem skapar vettvang fyrir fyrirmyndir þeirra fjölmörgu barna sem stunda íþróttir og eiga sér drauma og markmið um framtíðina.“
Dóra segir að sem flestar hendur komi að góðum notum. Það sé nauðsynlegt fyrir félagið en ekki síður skemmtilegt. „Það ættu allir að taka að sér sjálfboðavinnu fyrir íþróttafélög því án þeirra væru íþróttafélög ekki til. Það er svo gott fyrir alla að vera þátttakendur í starfinu og gera sér grein fyrir þeirri vinnu sem þarf að vinna til að börnin okkar, unglingarnir okkar, unga fólkið okkar og við fullorðna fólkið getum blómstrað í þeirri íþrótt sem hver og einn kýs að stunda. Ásamt því að veita áhugamanninum, félagsmanninum og stuðningsmanninum vettvang til að njóta þess að horfa á og styðja sitt félag.“
Dóra er eins og þeir sem hana þekkja með munninn fyrir neðan nefið og lætur í sér heyra þegar þess þarf. Hún segir ríkið þurfa að leggja meira fé í íþróttir.
„Íþróttafélög eru stór þáttur í félagslífi margra og eru algjörlega ómetanlegur þáttur í lífi fólks sem tilheyrir þeim. Það að tilheyra og fá að vera þátttakandi í starfi íþróttafélags verður aldrei metið til fjár í lífinu. Forvarnir og félagsþroski eru lífsgæði sem felast í ástundun íþrótta og störfum innan íþróttafélags og eru þessi lífsgæði ekki nógu mikils metin hjá hinu opinbera sem ættu að setja miklu meiri fjármuni í starf íþróttafélaga svo að allir hafi tækifæri til að blómstra á sínum vettvangi í félagsskap annarra.“
Ertu með einhver skilaboð til Þórsara?
„Ég hvet fólk til að stíga fram og vera þátttakendur í íþróttastarfi barna sinna og annarra ættingja og vera þar með börnunum og öðrum gríðarlega mikilvægar fyrirmyndir í því hvað felst í að tilheyra íþróttafélagi og fá að stunda þær íþróttir sem þau elska.“
„Það þarf heilt þorp til að ala upp barn eins og einhver snillingur sagði einhvern tímann og ég held að þessi orð segi allt sem segja þarf þegar kemur að starfi íþróttafélaga og það mætti bæta við þessa setningu að það þarf ennþá þorp til að búa til vettvang fyrir þá sem vaxnir eru úr grasi og farin að stunda sína íþrótt í efstu flokkum sinna íþróttagreina. Það er svo mikilvægt að vera hluti af starfi íþróttafélagsins áfram og fylgja þessu frábæra íþróttafólki sem við eigum alla leið.“
„Eitt af mikilvægustu verkefnum foreldra í íþróttastarfi barna sinna er að kenna þeim að vera félagsmenn til framtíðar þannig græða allir mest á að tilheyra íþróttafélagi.“