Vorbikarmótaröð HNÍ mót 2

Ágúst á góðum degi
Ágúst á góðum degi

Jakub Biernat var að mæta Hlyn Þorra Helgusyni úr HFK í annað skiptið eftir að hafa sigrað hann í Kópavogi á fyrsta bikarmótinu. Hlynur mætti með glænýja áætlun og reyndi mun meri pressu en þegar þeir mættust síðast. Núna var Hlynur ákveðinn í að láta Jakub bakka. Jakub byrjaði fyrstu lotu á að slá alltaf þegar Hlynur nálgaðist, það virkaði mjög vel og var Jakub að skora vel, hann sló Hlyn bæði í magann og í andlitið eftir því hvað var opið. En Hlynur hætti ekki að koma áfram. Lota 2 var svo svipu lotu 1, nema Jakub var farinn að slá aðeins minna, hann var greinilega að verða þreyttur. Lota 3 hefði svo vel getað verið eign Hlyns Þorra, nema hann sló bara ekki nógu mikið. Jakub var greinilega mjög þreyttur, en Hlynur hefur verið það líka, eða bara verið fullur efa hvort hann gæti komið inn höggum, því þegar Jakub þurfti á því að halda, þá kom hann alltaf stungu inn á Hlyn. Þannig að þriðja lotan fór mikið í glíma og snúa sér undan. Hlynur náði þó að lenda góðu höggi á Jakub á loka sekúndunum og fannst dómaranum ástæða til að gefa Jakub talningu, en eftir talninguna var lotan búin og Hlynur náði því ekki að búa sér til neitt úr þessu. Jakub náði því sigrinum og hefur nú unnið 2 af 3 og er þar með orðinn bikarmeistari í sínum flokk. Þeir eiga samt eftir að mætast einu sinni í viðbót og verður það 22. febrúar í húsakynnum WCBA. Hér má sjá viðureignina https://www.youtube.com/watch?v=Pk-LRzL55zE

Ágúst Davíðsson mætti Deimantas Zelvys ú HFH. Þeir mættust líka síðast og sigraði Ágúst þar nokkuð örugglega. Ágúst var enn beittari núna! Deimantas virkaði frekar stressaður á meðan Ágúst var öryggið uppmálað. Deimantas byrjaði strax að hringsóla og reyna að halda Ágústi í burtu, en Ágúst gat mjög auðveldlega staðið í þeirri fjarlægð sem hann vildi og sló Deimantas með stungum hvenær sem honum datt í hug. Í annari lotu þurfti dómarinn að telja 3x yfir Deimantas og stöðvaði því viðureignina í annari lotu. Ágúst er því búinn að vinna 2 af 3 viðureignum gegn Deimantas í bikarmótinu og orðinn vorbikarmeistari í sínum flokk. Hér má sjá viðureign þeirra https://www.youtube.com/watch?v=A2_cAB9gAvk

Elmar Freyr Aðalheiðarson mætti góðvini sínum Magnúsi Kolbirni Eiríkssyni. Þeir voru að mætast í 10. skiptið og hafði Elmar unni 8x og Magnús 1x. Elmar hefur verið að létta sig og ætlaði að keppa í -90kg flokki, en þar sem enginn keppandi var í þeim flokki skráði Elmar sig í +90kg. Það var því nánast 30 kg munur á þeim. Elmar byrjaði fyrstu lotuna á að reyna að slá stungu og hreyfa sig, og var að ganga vel með það. Magnús var ekki stöðvaður svo auðveldlega og hélt áfram að ráðast inn á Elmar þar til hann náði í hann. Elmar byrjaði á að reyna að koma sér undan með því að beygja sig fram og setja höfuðuð fyrir sig, sem er ólögleg hreyfing og dómarinn þurfti að gefa Elmari nokkrar áminningar vegna þess í fyrstu lotu. Í lotu tvö var Elmar nánast hættur að koma sér undan Magnúsi og bara byrjaður að mæta honum og skiptast á höggum. Þetta var svona alvöru þungarvigtar viðureign, ár sem menn setja allt sem þeir geta í höggin og halda svo andstæðingunum þar til dómarinn aðskilur þá. Báðir voru að verða mjög þreyttir og farnir að bregðast hægar við skipunum dómara um að sleppa og halda áfram að boxa. Í þriðju lotu ákvað dómarinn svo að taka stig af Elmari fyrir að setja höfuðið fyrir sig og nú orðið virkilega spennandi hvor myndi sigra viðureignina. Þeir enduðu jafnir á stigum en Elmar endaði sem sigurvegari með 2 dómara gegn 1 í vali á sigurvegara. Elmar hefur því unni Magnús í 9. skiptið og er kominn með einn sigur í vorbikarmótaröðinni. Hann mætir svo Sigurjóni Guðnasyni 22. febrúar í síðasta bikarmótinu. Viðureignin er ekki komin á netið en verður sett hér inn þegar hún kemur.