Slakur kafli í seinni hálfleik og fjögurra marka tap
21.03.2023
Þórsarar hófu leikinn betur og náðu þriggja marka forystu, 4-1. Munurinn var svo áfram 1-3 mörk þar til Víkingar jöfnuðu í 10-10 þegar um 20 mínútur voru liðnar af leiknum. Undir lok hálfleiksins náðu Víkingar svo forystunni og staðan í leikhléi 14-15. Eins og í síðasta leik gegn Kórdrengjum var Kristján Páll Steinsson í góðum gír í markinu í fyrri hálfleiknum, varði þá átta skot.
Leikurinn var áfram nokkuð jafn framan af seinni hálfleiknum, en gestirnir leiddu með 1-2 mörkum og síðan jafnt, 17-17. Þá kom kafli þar sem gestirnir gerðu sex mörk gegn einu frá okkar mönnum og staðan orðin 18-23 þegar rúmt korter var eftir. Þrátt fyrir ákafar tilraunir til að vinna upp þennan mun gekk það ekki. Okkar menn náðu ekki að brúa þetta bil, minnkuðu þó muninn í þrjú mörk, en komust ekki nær.
Þegar upp var staðið var munurinn fjögur mörk, 26-30. Arnór Þorri Þorsteinsson var valinn Þórsari leiksins og fékk að launum gjafabréf frá Sprettinum, en hann skoraði sjö mörk. Kristján Páll Steinsson var öflugur í markinu í fyrri hálfleiknum. Fyrrum liðsmaður Þórs, Gunnar Valdimar Johnsen, skoraði mest fyrir gestina, níu mörk.
Tölurnar
Þór
Mörk: Arnór Þorri Þorsteinsson 7, Aron Hólm Kristjánsson 5, Jón Ólafur Þorsteinsson 3, Viðar Ernir Reimarsson 3, Andri Snær Jóhannsson 2, Jonn Rói Tórfinnsson 2, Jóhann Geir Sævarsson 2, Aðalsteinn Ernir Bergþórsson 1, Arnþór Gylfi Finnsson 1.
Varin skot: Kristján Páll Steinsson 11, Arnar Þór Fylkisson 1
Brottvísanir: 2 mínútur
Víkingur
Mörk: Gunnar Valdimar Johnsen 9, Kristján Orri Jóhannsson 5, Guðjón Ágústsson 3, Sigurður Páll Matthíasson 3, Igor Mrsulja 3, Halldór Ingi Jónasson 2, Styrmir Sigurðarson 2, Agnar Ingi Rúnarsson 1, Jóhann Reynir Gunnlaugsson 1, Halldór Ingi Óskarsson 1.
Varin skot: Sverrir Andrésson 6, Hlynur Freyr Ómarsson 4.
Brottvísanir: 10 mínútur
Staða liðanna sem hafa leyfi til að vinna sér sæti í efstu deild, þeirra liða í deildinni sem ekki eru ungmennalið, á ekki eftir að breytast í lokaumferðum deildarinnar. HK hefur þegar tryggt sér deildarmeistaratitilinn og sæti í Olísdeildinni á næsta tímabili. Víkingar eru í 2. Sæti með 23 stig, Fjölnir í 3. sæti með 16 stig, Þór í 9. sæti með 12 stig og Kórdrengir á botninum með tvö stig. Þessi fjögur lið fara í úrslitakeppni um hitt lausa sætið í efstu deildinni. Víkingar mæta Kórdrengjum og Fjölnir tekur á móti Þór. Úrslitakeppnin hefst eftir páska.
Lokaleikir Þórs í deildinni eru:
Föstudagur 24. mars: Selfoss U – Þór
Föstudagur 31. mars: Þór – Valur U
Tölfræði leiksins á Hbstatz.is.